Á Hæstiréttur að þyngja refsinguna í Hafnarstrætis-máli?

HæstirétturÍ júnímánuði kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli ákæruvaldsins gegn tveimur ungum mönnum sem réðust á annan ungan mann í Hafnarstræti fyrir rúmu ári með þeim afleiðingum að atlagan leiddi til dauða hans. Mennirnir tveir fengu 2 og 3 ára fangelsisdóm og þótti mörgum dómurinn vægur. En var dómurinn í málinu of vægur?

HæstirétturÍ júnímánuði kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli ákæruvaldsins gegn tveimur ungum mönnum sem réðust á annan ungan mann í Hafnarstræti fyrir rúmu ári með þeim afleiðingum að atlagan leiddi til dauða hans. Mennirnir tveir fengu 2 og 3 ára fangelsisdóm, en sá sem þyngri dóminn hlaut var reyndar í sama máli dæmdur fyrir aðrar tvær líkamsárásir. Mörgum þykir dómurinn of vægur. Hafa sumir þeirra ritað í blöð og á vefrit til að mótmæla dómnum meðan aðrir hafa skrifað á undirskriftalista sem gengur manna á millum á netinu til að mótmæla vægð dómsins. Þess er krafist að Hæstiréttur þyngi refsingu yfir mönnunum, en málið verður að öllum líkindum tekið þar fyrir í haust. En var dómurinn í þessu máli of vægur?

Þann 22. maí 1998 kvað Hæstiréttur upp dóm í svokölluðu Vegas-máli (Hrd. 1998, bls. 2060), en þar var ákært fyrir sams konar háttsemi og í Hafnarstrætis-málinu, þ.e. líkamsárás sem leiddi til dauða, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Málsatvik voru svipuð í málunum. Í báðum málunum réðust tveir menn að fórnarlambinu með þeim hætti að atlaga annars kom á undan atlögu hins. Í báðum málunum beitti fyrri árásarmaðurinn höggi/höggum en sá síðari sparki/spörkum. Drógu þessar atlögur fórnarlömbin til dauða, þó gerendurnir hafi í hvorugu málinu verið taldir hafa haft ásetning til þeirrar afleiðingar. Í Vegas-málinu fékk annar hinna dæmdu 2 ára fangelsisdóm en hinn 2 ár og 3 mánuði. Fleiri dómar hafa fallið fyrr á árum sem ganga í svipaða átt um refsingu fyrir verknað sem þennan.

Í lýðræðisríki er það grundvallaratriði og í samræmi við meginregluna um jafnræði þegnanna, sbr. 65. gr. stjórnarskrár, að úr svipuðum eða sams konar málum sé leyst á svipaðan hátt. Auðvitað eru engin tvö mál eins, en út frá því grundvallarstefi verður að ganga að ef í einu máli hefur verið dæmd ákveðin refsing fyrir tiltekinn verknað, þá skuli í næsta máli, þar sem um sams konar verknað er að ræða og málsatvik eru með svipuðum hætti, dæmd svipuð refsing ef refsiákvæðið sem á reynir, og refsirammi þess, hefur ekkert breyst í millitíðinni. Slík niðurstaða er ekki aðeins í samræmi við jafnræðisregluna, heldur einnig meginregluna um að refsiheimildir skuli vera lögbundnar og refsiákvörðun fyrirsjáanleg, sbr. 69. gr. stjórnarskrár og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, eins og það ákvæði hefur verið túlkað. Þegnarnir verða að geta séð fyrir, með því að líta til refsiákvæðisins og dómaframkvæmdar um það, hvaða refsingu tiltekinn verknaður hefur í för með sér.

Það væri algerlega óviðunandi í réttarríki og ótækt ef Hæstiréttur myndi dæma mennina tvo í Hafnarstrætismálinu til mun þyngri fangelsisvistar en þá í Vegas-málinu, enda hefur refsiramminn og verknaðarlýsing 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga ekkert breyst milli þessara tveggja verknaða. Ósamræmi í refsingum fyrir sams konar brot vegur að rótum réttarríkisins.

Þeir sem hæst hafa látið í sér heyra í kjölfar dóms héraðsdóms í Hafnarstrætis-málinu hafa talað um að almenn réttarvitund krefjist hærri refsingar yfir mönnunum. Það getur vel verið. Sú staðreynd breytir því þó ekki að það stenst ekki að hækka refsingar með vísan til slíkra viðmiða. Í fyrsta lagi er almenn réttarvitund ekki lögmætt viðmið við ákvörðun refsingar. Hvergi er gert ráð fyrir slíku viðmiði í almennum hegningarlögum eða öðrum refsilögum, sem betur fer. Dómstóll götunnar yrði aldrei góður dómstóll. Í öðru lagi er afar erfitt fyrir dómstóla að festa hendur á þessu viðmiði. Réttarvitund er afar mismunandi milli manna. Réttarvitund sumra krefst ekki hærri refsingar yfir mönnunum tveimur í Hafnarstrætis-málinu. Þeir eru hins vegar ekki jafnháværir og hinir sem hafa látið í sér heyra í blöðum og á netinu um hærri refsingar yfir mönnunum tveimur.

Eini aðilinn sem gæti reynt að endurspegla réttarvitund meirihluta landsmanna er Alþingi sjálft. Löggjafinn er rétti aðilinn til að hækka refsingar, meti hann það svo. Vilji hann hærri refsingar í ofbeldismálum á hann að senda skýr skilaboð til dómstóla í formi löggjafar. Það er ekki dómstóla að hækka og lækka refsingar að vild. Þeir eru bundnir af jafnræðissjónarmiðum og meginreglunni um lögbundnar refsiheimildir. Hafi þeir dæmt ákveðna refsingu fyrir ákveðinn verknað og sett þar af leiðandi tiltekið fordæmi, geta þeir ekki rokið til og hækkað eða lækkað refsingar í sams konar máli síðar, ef refsiákvæðið sem á reynir hefur ekkert breyst í millitíðinni. Það er löggjafans að breyta refsilögunum og knýja þannig dómstólana til breytinga, ekki dómstólanna sjálfra.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)