Rök gegn afnámi mjólkurkvóta

MjólkurkvótiLandbúnaðarráðherra hefur undanfarið gefið í skyn að þegar núverandi búvörusamningur rennur út muni fyrirkomulagi afurðastyrkja fyrir mjólk verða breytt talsvert. Þetta hefur sett verðmæti mjólkurkvótans í uppnám og hafa kvótaeigendur gagnrýnt breytingarnar harkalega. Mikið af þeirra rökum hljómar kunnuglega.

MjólkurkvótiVegna mikils óhagræðis og offramleiðslu í mjólkuriðnaði, var á sínum tíma brugðið á það ráð að grípa til kvótasetningar á framleiðsluna. Mjólkurkvótanum var í upphafi úthlutað samkvæmt framleiðslureynslu bænda, en er nú framseljanlegur. Mjólkurkvótinn gefur bændum aðgang að því miðstýrða framleiðslukerfi sem hér er við lýði, með ríkisákvörðuðu lágmarksverði sem í raun er ekkert annað er framleiðslustyrkur.

Fyrir bændum er mjólkurkvóti algert skilyrði til að geta stundað mjólkurframleiðslu. Þar sem ýmsir hafa verið að stækka við sig hefur kvótinn gengið kaupum og sölum og hefur hann undanfarið verið mjög dýr. Nýlegar yfirlýsingar Landbúnaðarráðherra, um að fyrirkomulagi afurðastyrkja fyrir mjólk verði breytt innan nokkurra ára hefur sett verðmæti mjólkurkvótans í uppnám og hafa kvótaeigendur gagnrýnt breytingarnar harkalega.

Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er að yfirlýsingar ráðherra setji atvinnugreinina í óvissu og valdi því að ekki sé hægt að skipuleggja framleiðsluna. Tvö ár séu líka stuttur tími og ekki sé hægt að gjörbylta kerfi sem menn hafi skipulagt sinn rekstur í kringum.

Ýmsir hafa líka skuldsett sig mikið og miðað sínar rekstraráætlanir við núverandi kerfi. Ef kerfinu verður breytt er ljóst að margar áætlanir eru í uppnámi og greiðslubyrði lánanna verður mörgum ofviða. Auk þess mun veðhæfni þessara fyrirtækja minnka, því ef engir eru styrkirnir verður mjólkurkvótinn verðlaus.

Enn fremur hefur verið bent á óréttlætið við að fella niður þetta kerfi, enda eru margir þeirra sem upphaflega fengu kvóta hættir búskap og því yrði með breytingum verið að ganga á verðmæti fólks sem fjárfest hefur í kvótanum.

Ráðherra hefur sýnt þessum sjónarmiðum litla samúð og bent á að alltaf hafi verið ljóst að afurðasamningurinn væri háður endurskoðun. Hann hefur einnig sagt að ekki hafi verið réttlætanlegt að skuldsetja sig um of við fjárfestingar í mjólkurkvóta þar sem engin trygging hafi verið fyrir því að kerfið yrði óbreytt til lengri tíma.

Þótt ýmislegt hér að ofan minni á deilurnar um fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir síðustu kosningar, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að mjólkurkvóti á nánast ekkert skylt við fiskveiðikvóta. Fiskveiðikvóti (hvernig sem honum er úthlutað) er grundvallaratriði fyrir skynsamlega nýtingu tiltekinnar auðlindar sem er takmörkuð af náttúrunnar hendi. Mjólkurkvótinn er leið til að halda uppi óarðbærri framleiðslu með ríkisstyrkjum. Það er ólíklegt að margir frjálshyggjumenn samþykki að ofangreind rök réttlæti óbreytt kerfi í mjólkurframleiðslu. Þeir bændur sem hafa skuldsett sig um of neyðast hugsanlega til að hætta framleiðslu, en aðrir taka við og bændur halda áfram að hagræða. Einhverjir hafa lagt rangan skilning í framtíðaráætlanir stjórnvalda, en þeir verða bara að bíta í það súra epli. Líklegt er að fáum frjálshyggjumönnum finnist réttlætanlegt að halda uppi óskynsamlegu kerfi bara vegna þess að einhver hélt að ríkið myndi aldrei breyta því.

Það er því athyglisvert hversu tíðrætt frjálshyggjumönnum verður um þessi sömu rök í umræðum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)