Hlutdeildarmenn verða að gjalda

Enginn viti borinn maður mun nokurn tímann gleyma gærdeginum. Ímyndir illskunnar eru meitlaðar í huga þeirra sem fylgdust með í sjónvarpi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hryllinginn – sú frásögn er flestum kunn – en vert er að huga að áhrifum þessa djöfullega verknaðar.

Enginn viti borinn maður mun nokurn tímann gleyma gærdeginum. Ímyndir illskunnar eru meitlaðar í huga þeirra sem fylgdust með í sjónvarpi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hryllinginn – sú frásögn er flestum kunn – en vert er að huga að áhrifum þessa djöfullega verknaðar. Flestir eru sammála um að Bandaríkjamenn muni svara fyrir sig fljótt og heiftarlega. Reiði Bandaríkjamanna og raunar allra þegna hins frjálsa og lýðræðislega heims er réttlætanleg og henni verður vonandi fundin útrás. En hvernig?

Gefum okkur að illvirkjarnir finnist, jafnvel að þeir verði framseldir til Bandaríkjanna og hljóti þar þungan dóm – væntanlega dauðadóm. Er það nóg? Höfum í huga að illvirkjarnir eiga sér marga samverkamenn og miklu, miklu fleiri hlutdeildarmenn. Það er grundvallarregla refsiréttar, að samverknaður veldur refsiþyngingu og refsimörk fyrir hlutdeild eru þau sömu og fyrir aðalverknað. En hverjir geta talist hlutdeildarmenn? Samkvæmt íslenskum refsilögum felst hlutdeild í liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða annars konar þátttöku í afbroti. Ljóst er að margir, mjög margir geta fallið undir þessa skilgreiningu þegar voðaverk gærdagsins eru skoðuð í þessu ljósi.

En burtséð frá ábyrgð, þá verður stærsti sigur hryðjuverkamannanna kannski sá, að grafa undan vestrænum samfélagsháttum. Í opnu og frjálsu lýðræðisþjóðfélagi, þar sem hver einstaklingur (líka verðandi fjöldamorðingi) hefur allt að því heilagan rétt gagnvart ríkisvaldinu, er ógerlegt að verjast árásum þeirra sem eru skeytingarlausir um allt, nema sína eigin fanatík og illskuna sem innra með þeim býr. Hryðjuverkaógnin er því óhjákvæmilegur fylgifiskur vestrænna lifnaðarhátta. Erum við reiðubúin að láta af vestrænum lifnaðarháttum og taka upp virkt lögregluríki til þess að búa við meira öryggi? Þessi spurning hlýtur að vakna, en svarið hlýtur jafnframt að vera nei. Og hvað er þá til ráða? Kannski að taka undir málstað hryðjuverkamannanna og gera þeim til geðs, eins og Múrinn heldur fram í dag? Eru Múrverjar þá líka á þeirri skoðun, að afnema beri ríkisvaldið til að þóknast stjórnleysingjunum sem sprengdu fólk í tætlur í Oklahoma og koma þannig í veg fyrir að þeir láti til skara skríða á ný? Væntanlega ekki.

Þá er í raun aðeins einn kostur eftir í stöðunni, er það ekki?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.