Á níunda áratugnum var háð á vesturströnd Bandaríkjanna hatrammt stríð um tölvustýrikerfi. Á þeim tíma fylgdust fáir með átökunum sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á tölvuvæðingu heimsins og gera sigurvegarann að ríkasta einstaklingi í heimi. Allir þekkja Bill Gates og fyrirtæki hans, Microsoft, sem hefur komið sér fyrir í langflestum heimilstölvum síðari ára. Meistari Gates hefur væntanlega ekki gert sér grein fyrir þeim gífurlegu fjármunum sem felast í stýrikerfaframleiðslu er hann hóf framleiðslu á Windows. En það gera hins vegar þeir þátttakendur sem nú eru að setja sig í stellingar fyrir næsta stríð um stýrikerfi.
Þegar fyrstu einkatölvurnar komu á markaðinn veittu þeim fáir athygli. Stóru tæknifyrirtækin höfðu litla trú á því að almenningur hefði nokkurn tíma not fyrir einkatölvur og álitu því að markaður væri ekki fyrir hendi. Það gerði það að verkum lítil fyrirtæki fengu frið til þess bæði að smíða einktölvur og hanna stýrikerfi fyrir þær. Apple kom með sína fyrstu tölvu í maí 1976, Apple-1, sem keyrði BASIC og var aðallega ætluð fyrir leiki. Ári seinna kom svo arftakinn, Apple-II, sem keyrði BASIC ásamt DOS stýrikerfinu. Apple-II náði þónokkrum vinsældum og Apple var komið fullt skrið í einkatölvugeiranum. Það var hins vegar ekki fyrr en í janúar árið 1983 er Apple sendi frá sér vélina Lisu sem fyrsta stýrikerfi sögunnar með grafísku notendviðmóti leit dagsins ljós. Lisa notaðist við LisaOS stýrikerfið sem markaði upphafið að þróun hins vinsæla stýrikerfis MacOS. Það var sjálfur Steve Jobs, stofnandi og forstjóri Apple, sem kom með hugmyndina að LisaOS stýrikerfinu en hugmyndinni „stal” hann hann hins vegar frá ljósritunarvélaframleiðandum Xerox. Eins og aðrir tæknirisar á þessum árum hafði Xerox ekki trú á einkatölvum og leyfði Jobs að stela því sem hann vildi. Bill Gates, sem þá hafði stofnað Microsoft, var jafn sannfærður og Jobs um að grafísk stýrikerfi ættu framtíð fyrir sér og boðaði því fæðingu Windows stýrikerfisins sama ár. Talið er að Jobs hafi orðið óður yfir fyrirætlunum Microsoft og sakaði fyrirtækið um að stela hugmyndum frá Apple. Á þessum tíma var IBM helsti keppinautur Apple í framleiðslu einkatölva og óttaðist Jobs um forskot sitt ef Microsoft kæmi með glugga-stýrikerfi á markaðinn fyrir IBM vélar. Microsoft óttaðist málsókn frá Apple vegna framleiðslu sinnar og keypti sér frið með því að undirrita samstarfssamning við Apple í nóvemeber sama ár þess efnis að Windows kerfið myndi keyra á Apple tölvum. Í staðinn fékk Microsoft leyfi til þess að nota hugmyndir Apple um grafískt stýrikerfi. Þessi samningur er mörgum álitinn ein mestu mistök tölvusögunnar.
Fyrsta útgáfa Windows stýrikerfisins kom reyndar ekki út fyrr en fjórum árum síðar er Windows 1.01 kom á markaðinn. Það var keimlíkt MacOS stýrikerfinu og nýtti sér flesta grafíska eiginlega þess – en keyrði eingöngu á IBM vélum! Jobs varð æfur út í Gates sem svaraði fyrir sig í viðtali við MacWEEK: “Hey, Steve, just because you broke into Xerox’s house before I did and took the TV doesn’t mean I can’t go in later and take the stereo.”
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009