Væntingar sem rætast af sjálfu sér

Efnahagslegar afleiðingar árásanna á Bandaríkin verða líklega gríðarlegar. En ekki vegna þess að árásirnar ollu svo mikilli eyðileggingu heldur vegna þess að þær breyttu væntingum fólks og væntingar geta ræst af sjálfu sér.

Efnahagslegar afleiðingar árásanna í Bandaríkjunum í síðustu viku virðast ætla að vera gríðarlegar. Strax og árásirnar áttu sér stað höfði þær víðtæk áhrif á fjármálamörkuðum. Fjármálamarkaðir í Bandaríkjunum lokuðu. Annars staðar í heiminum snarlækkuðu hlutabréf í verði, ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkaði og dollarinn veiktist um tæplega 3%. Þegar markaðir í Bandaríkjunum opnuðu loks á ný á mánudaginn lækkuðu hlutabréf um rúmlega 5% á öllum mörkuðum þrátt fyrir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti þá um morguninn um 50 punkta vaxtalækkun. Í kjölfarið fylgdi hryna af vaxtalækkunum frá öllum stærstu seðlabönkum heims. Aldrei áður hafa jafn margir jafn stórir seðlabankar lækkað vexti samtímis um jafn mikið. Það mætti halda að heimurinn væri að farast.

Ef eyðileggingin sem árásin olli er hins vegar borin saman við stærð hagkerfisins kemur í ljós að hún er einungis smámunir. Tjón á mannvirkum hefur verið metið í kringum 20 milljarðar dollara, bandarísku flugfélögin segjast hafa orðið fyrir 24 milljarða tjóni (sem er vísast mjög ofáætlað). Landsframleiðsla Bandaríkjanna er um 10.000 milljarðar á ári. Það ætti því að taka Bandaríkjamenn um einn og hálfan dag að framleiða jafnvirði tjónsins. Frá þessu sjónarhorni getur því tjónið ekki talist mikið. Það er í rauninni aðeins á við 2 til 3 stóra fellibylji. Frá þessu sjónarhorni virðast því viðbrögðin algerlega úr samhengi við alvarleika atburðarins.

Til þess að leggja mat á raunveruleg áhrif árásanna er hins vegar ekki nóg að meta beint tjón heldur er nauðsynlegt að taka mið af áhrifum árásanna á væntingar fólks. Væntingar fólks og fyrirtækja hafa augljóslega breyst til muna. Hræringarnar á fjármálamörkuðum sýna að væntingar fjárfesta hafa breyst. Fyrirtæki tengd flugi segja upp tugum þúsunda starfsmanna á hverjum degi og búast við því að flugumferð dragist saman um 20%. Þar að auki sýna fyrrnefndar aðgerðir seðlabanka um allan heim að þeir búast við því að væntingar almennings hafi breyst verulega.

Bíddu við. … Ef eyðileggingin er smávægileg í samanburði við framleiðslugetu hagkerfisins, af hverju hafa væntingar þá breyst? Er ekki eitthvað órökrétt við það að væntingar breytist þótt staða hagkerfisins breytist lítið sem ekkert? Hmmm, það er óneytanlega eitthvað bogið við það. En ekki endilega neitt órökrétt. Málið er að þessar nýju væntingar fólks munu að öllum líkindum rætast af sjálfu sér, þ.e. þær munu sjálfar leiða til þess að þær rætast þar sem þær munu leiða til uppsagna og minnkunar á framleiðslu.

Árásirnar hefðu alls ekki þurft að hafa í för með sér kreppu. Þvert á móti hefðu þær geta leitt til aukins hagvaxtar þar sem nú þarf að byggja skrifstofubyggingar í stað þeirra sem eyðilögðust og þar að auki þarf að auka útgjöld til hernaðarmála (þ.e. að mati flestra Bandaríkjamanna). En þar sem fólk óttast að árásirnar munu hafa slæmar efnahagslegar afleiðingar hefur fólk breytt hegðun sinni á þann veg að nú megum við að öllum líkindum búast við kreppu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.