Heimsleiðtogi til Íslands

Nelson MandelaSmekkur Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar á mögulegum kvöldverðargestum fer batnandi. Forsetinn hitti um helgina Nelson Mandela og ákvað að bjóða honum til Íslands. Mandela er í hugum margra, þ.á.m. mín, merkasti núlifandi stjórnmálaleiðtoginn. Æviskeið hans er öllum þeim, sem trúa á réttlæti, ævarandi hvatning.

Nelson MandelaÓlafur Ragnar og Mandela voru gestir á Ólympíuleikum þroskaheftra á Írlandi. Samkvæmt því sem fram kemur í fréttum hittust Ólafur og Mandela og Ólafur notaði tækifærið til að bjóða heimsleiðtoganum til Íslands. Ekki ku vera ákveðið hvenær að heimsókninni verður en víst er að margir hlakka til þess að fá tækifæri til að berja Mandela augum ef af heimsókninni verður.

Nelson Mandela er í hugum margra, þar á meðal mínum, merkasti núlifandi stjórnmálaleiðtoginn – og raunar skipar hann sér vafalaust í hóp merkustu leiðtoga sögunnar. Það er viðeigandi að Ólafur Ragnar hafi boðið Mandela til Íslands á Ólympíuleikum þroskaheftra þar sem til leikanna var stofnað af Kennedy fjölskyldunni sem ól af sér tvo stjórnmálamenn, John F. og Robert, sem ævinlega verður minnst yfir mikið framlag í þágu mannréttinda í heiminum.

Það sem gerir Mandela að sérstakri fyrirmynd í heiminum er ekki það að hann hafi þurft að dúsa hátt á þriðja áratug í grjótinu vegna andstöðu sinnar við ömurlegt óréttlæti í heimalandi sínu. Það er fyrst og fremst sú leið sem hann valdi til að vinna sig út úr því áfalli sem gerir hann að táknmynd skapfestu og réttlætisástar í heiminum.

Þrátt fyrir að hafa sætt miklu óréttlæti og að hafa verið sviptur frelsinu í mörg af frjósömustu árum ævinnar hefur Mandela aldrei virst bitur yfir þeirri reynslu. Hann er þvert á móti persónugervingur alls hins besta í mannsandanum því hann hefur sýnt það á lífshlaupi sínu að þrátt fyrir að menn séu sviptir öllu – þá eigi þeir samt sem áður val um hvernig þeir láta slíkt mótlæti verka á líf sitt. Þessi einstæði eiginleiki Mandela hlýtur að vera mikil hvatning fyrir öll okkur hin sem oft og tíðum látum smávægilegt mótlæti skyggja um of á lífsins sól.

Fyrir þá sem hafa sérstakan áhuga á mannréttindum og réttlæti – og vonandi höfum við það flest – yrði það ógleymanlegt ef af heimsókn Mandela til Íslands verður. Mandela, og ævi hans, er okkur stöðug áminning um að það frelsi og þau mannréttindi, sem við erum svo lánsöm að búa við, eru ekki sjálfgefin. Til er óvandað og óvægið fólk sem er tilbúið til þess að níðast á náunganum til þess að upphefja sjálft sig og því miður sýnir saga heimsins okkur að gjarnan tekst þeim harðsvíruðustu meðal okkar að brjóta niður vilja og samstöðu hins stóra meirihluta sem vilja búa við frið, frelsi, jafnrétti og bræðralag meðal mannanna.

Nelson Mandela er þó skýrt dæmi um það að réttlætið sigrar að lokum þótt baráttan fyrir því kunni að fela í sér marga hindrunina. Þeir, sem standa vörð um óréttlætið, bíða að lokum ósigur sem fellst ekki einasta í valdamissi heldur einnig fordæmingu mannkynssögunnar. Sigurskeið hinna harðsvíruðu kann á stundum að virðast illstöðvandi – en sigur hinna sem standa trúir í sannfæringu sinni um réttlátan málstað er bæði endanlegur og ævarandi. Um það er Nelson Mandela framúrskarandi dæmi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.