Úr öskunni í eldinn

Hafi R-listinn verið stefnulaus og tækifærissinnaður til þessa, mun sterk staða Vinstrigrænna innan raða hans bæta gráu ofan á svart. Öll mál verða eins og Orkuveitumálið; – ákveðin stefna, en þó ekki.

Um þessar mundir standa sem hæst viðræður Samfylkingarinnar, Framsóknar og Vinstrigrænna í Reykjavík um sameiginlegt framboð þessara þriggja flokka í borgarstjórnarkosningum næsta vor. Með þessum viðræðum er endanlega staðfest að R-listinn á sér enga sjálfstæða tilveru. Hann er kosningabandalag og tilvera hans ræðst af því, hvort þessir þrír flokkar sjá hagsmunum sínum borgið með sameiginlegu framboði. Það hagsmunamál sem er líklegast til að binda flokkana þrjá saman er sú viðleitni að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík. Sumum kann að þykja það göfugt markmið en öðrum ekki – í öllu falli verður það ekki gert að umtalsefni hér.

Málefni Orkuveitu Reykjavíkur og áætlanir um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag endurspegla í raun hvernig svona samkrull, sem ekki á sér sameiginlega stefnu nema að litlu leyti, virkar í raun og veru. Sú hugmynd kemur upp að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Vinstrigrænir eru auðvitað á móti slíku, af því að þeir (réttilega) telja að breyting fyrirtækis í hlutafélag sé einungis fyrsta skrefið í einkavæðingu. Auðvitað má ekki styggja Vinstrigræna á viðkvæmum tímapunkti í samningaviðræðum um tilverugrundvöll R-listans og því reynir borgarstjóri að hughreysta þá með því að segja, að eina breytingin á fyrirtækinu verði sú, að stöfunum h og f verði bætt aftan við nafn þess. Þannig hljóta allir að vera ánægðir; Orkuveitan orðin hlutafélag en þó ekki – ekkert breytist, bara yfirborðið.

Hafi R-listinn verið stefnulaus og tækifærissinnaður til þessa, mun sterk staða Vinstrigrænna innan raða hans bæta gráu ofan á svart. Öll mál verða eins og Orkuveitumálið; – ákveðin stefna, en þó ekki. R-listinn þarf hins vegar svo mjög á Vinstrigrænum að halda, að framvegis mun skýr stefna og framtíðarsýn skipta enn minna máli en verið hefur hingað til, og er í raun ótrúlegt að hægt sé að fara úr öskunni í eldinn í þeim efnum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.