Ógn og óvissa

Hryðjuverkaárásirnar í New York hrundu af stað atburðarrás sem enginn veit hvert leiðir.

Nú er liðin rúmlega vika frá hryðjuverkaárásinni í New York og Washington. E.t.v. er fólk komið með örlitla leið á umfjöllunum um árásirnar en ekki verður hjá því komist að taka afleiðingar hennar til nákvæmrar skoðunar, enda verða atburðirnir þann 11. sept. sl. sannarlega engar neðanmálsgreinar í sagnfræðiritum framtíðarinnar.

Bandaríkjamenn voru fljótir að koma þeim skilaboðum til heimsbyggðarinnar að hryðjuverkamaðurinn Osama bin Laden væri ábyrgur fyrir ódæðinu. Hefndar- og réttlætisþorstann bar því allan að sama brunni og víst er að flestum myndi létta við fregnir um fráfall eða handtöku bin Laden. Nú sitja menn á rökstólum í Afganistan og velta því fyrir sér hvernig taka beri á ástandinu. Gagnvart tailbönum og Osama bin Laden líta kostirnir þannig út. Í fyrsta lagi geta þeir framselt bin Laden – eða hann sjálfur gefið sig fram sem píslarvott – og þar með fært stærstum hluta heimsbyggðarinnar hugarró. Þetta myndi gera Bandaríkjamönnum ákaflega erfitt fyrir með að halda af stað í umfangsmiklar hernaðaraðgerðir gegn fátækum ríkjum. Bandaríkjamenn vildu bin Laden og víst er að réttlætisþorsta flestra yrði slökkt með handtöku hans. Í öðru lagi getur stjórnin í Afganistan látið bin Laden eiga sig og boðið Bandaríkjamönnum að gera alla afgönsku þjóðina að píslarvottum.

Í raun má segja að Afganistan hafi flest tromp á hendi varðandi almenningsálitið á næstu misserum þar sem aðgerðir Bandaríkjamanna, hverjar sem þær verða, munu vekja sterkar tilfinningar hjá almenningi sem mun áreiðanlega eiga erfitt með að verjast því að finna til umtalsverðrar samúðar með þeim sem verða fyrir barðinu á hernaðarmætti Bandaríkjamanna. Þetta eru réttar og eðlilegar tilfinningar sem allt hjartagott fólk hlýtur að finna til. Þó má ekki gleymast að þau ríki sem styrkja hryðjuverk eru í stríði gegn hinum vestræna heimi. Stríðið er háð á öðrum forsendum en hefðbundin stríð vegna hins mikla aflsmunar – en stríð er það engu að síður. Það er frumskylda ríkisins að tryggja öryggi þegna sinna og þjóðir verða að snúast til varnar þegar á þær er ráðist.

Á næstu vikum, mánuðum og jafnvel árum, munu fréttir af árásum Bandaríkjamanna inn í hin ýmsu ríki verða tíðar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir að stríð sé viðurstyggilegt þá geta komið upp aðstæður þar sem það er óhjákvæmilegt.

Því er ekki að neita að ýmsir, þar á meðal ég, hafa ugg í brjósti varðandi þróun heimsmála næstu árin. Flestir vonast eftir frjálsum, opnum og lýðræðislegum heimi þar sem menn geta átt viðskipti, og önnur samskipti, á hindrunarlausan hátt og að fólki sé ekki skipt í dilka eftir þjóðerni, trú eða öðru. Mikilvægt er að á næstu misserum að fólk forðist að láta ófriðarróstur verða tilefni fordóma en geri sér jafnframt grein fyrir því að ekki er þolandi að fámennir öfgahópar raski friði og frelsi í heiminum án þess að hljóta ráðningu fyrir. Sjálfur bið ég þess að smám saman takist að gefa kúguðum þjóðum heimsins tækifæri til þess að upplifa einstaklingsfrelsið – því rétt eins og frjáls fugl flýgur ekki viljandi inn í búr þá munu frjálsar þjóðir ekki láta frelsið sitt af hendi þegar það er loks fengið, því einungis með því að hafa samanburðinn geta hinar kúguðu þjóðir heims gert sér grein fyrir því á hver miklum villivegum stjórnherrar þeirra eru.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.