Ríkistryggð neyslulán

NirfillinnMikið hefur verið rætt og ritað um tillögur félagsmálaráðherra um innleiðingu 90% húsnæðislána á næstu fjórum árum og hækkun á hámarksláni í allt að 18 milljónir króna. Ein afleiðing þessara aðgerða yrði sú að umsvif ríkisins á almennum fjármálamarkaði myndi aukast umtalsvert á kostnað banka og fjármálafyrirtækja.

NirfillinnÍ tillögum félagsmálaráðherra er talað um innleiðingu 90% húsnæðislána á næstu fjórum árum og hækkun á hámarksláni í allt að 18 milljónir króna. Hér er vissulega um göfugar hugmyndir að ræða, en flestir sem sett hafa fram skoðanir sínar um þetta mál hafa varað við þessum tillögum og þá sérstaklega aðilar sem tengjast íslenska fjármálamarkaðnum og einnig Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn.

Færri hafa verið þessum breytingum til varnar en þó hefur Íbúðalánasjóður sjálfur mælt þessu bót, og eins hefur kynningafulltrúi Framsóknarflokksins haldið uppi vörnum og talað um söng úr hópi úrtölumanna sem kveða verður í kútinn.

Áður hefur verið bent á það hér á Deiglunni að þessar breytingar munu auka þenslu á húsnæðismarkaði, samhliða virkjunarframkvæmdum, sem aftur leiðir til hækkunar vaxta og hærra gengis sem þrengir að útflutningi landsmanna. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur einnig sett fram sambærilegar skoðanir og segir að hugmyndir um útlánaaukningu Íbúðalánasjóðs gæti “grafið undan lausafjárstýringu Seðlabankans, valdið hærri raunvöxtum og raungengi og hækkað íbúðaverð ef henni verði ekki haldið innan strangra marka.” Greiningadeild Landsbankans telur að húsnæðisverð muni hækka um 12-15% umfram eðlilegar hækkanir ef þessar hugmyndir verða að veruleika. Það virðist því vera erfitt að rúma þessar hugmyndir framsóknarmanna innan núverandi efnahagsramma án þess að stöðugleika verði ógnað.

Óhætt er að taka undir varnarorð greiningadeildar Landsbankans sem telur mikilvægt að hámarkslánum sé stillt í hóf. Einnig er mikilvægt að tímasetningar breytinga verði sveigjanlegar, þannig að mögulegt verði að fresta eða jafnvel hætta við, ef í ljós kemur að áhrifin á fasteignamarkað og eftirspurn dragi mjög úr ávinningi íbúðakaupenda.

Minna hefur verið rætt um þá samkeppni á lánamarkaði sem ríkisvaldið er að veita bönkum og fjármálafyrirtækjum með ríkistryggðum lánum, en stutt er síðan stjórnvöld stigu það gæfuspor að draga sig út úr almennri bankastarfssemi. Kosningaloforð framsóknarmanna ganga þar þvert á þá stefnu að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði. Þessar aðgerðir munu enn frekar festa hlutverk ríkisins sem stærsta einstaka lánveitanda fjármálakerfisins og hrifsa til sín viðskipti frá bönkunum sem nýbúið er að selja.

Ljóst er að margir muni fullnýta sér þennan möguleika til lántöku og munu þessar breytingar nýtast skuldsettum heimilum vel þar sem þau geta lækkað greiðslubyrði sína með því að greiða niður dýrari lán. En á móti kemur að skuldsetning heimila í heild getur aukast umtalsvert, sérstaklega ef þessi viðbót er notuð til þess að fjármagna neyslu, sem ekki er ólíklegt. Það mun að öllum líkindum stuðla að verðbólgu og koma okkur í þá slæmu stöðu að hafa í raun ríkistryggð neyslulán.

Þessi uppgreiðsla dýrari lána kemur niður á hinum frjálsa markaði þar sem samkeppnisstaða banka og Íbúðalánasjóðs er með engu móti sambærileg, ekki bara vegna ríkisábyrgðarinnar heldur einnig vegna reglna um eiginfjárhlutföll og útlánaafskriftir. Nær væri að láta ríkisvaldið færa húsnæðislánin í áföngum yfir í bankakerfið, eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til, og Íbúðalánasjóður sinnti þá aðeins félagslegum íbúðalánum.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.