Ríkismenningin að kæfa einkaframtakið

Síðustu tíu ár hefur flokkur einkaframtaks og lágmarksríkisafskipta farið með stjórn menningaramála. Hvað gerist eiginlega ef þeir flokkar sem raunverulega eru hlynntir ríkisrekstri taka yfir þennan málaflokk? Hvers mega einkaðilar í menningargeiranum vænta þá?

Síðan 30. apríl 1991 hafa menningarmál á Íslandi verið í höndum stjórnmálaflokks sem kennir sig við einkaframtak. Á þessum tíma hafa orðið gífurleg umskipti til hins betra í flestum málaflokkum sem undir ríkisvaldið heyra – umskipti í átt til frjálsræðis og minni ríkisafskipta. Einstaklingurinn hefur verið settur í öndvegi og ríkisvaldið hefur dregið sig í hlé að verulegu leyti.

Nú berast af því fréttir að tveir fulltrúar einkaframtaksins í menningargeiranum, Skjár Einn og Leikfélag Íslands, eigi í verulegum fjárhagsvandræðum. Ríkisvaldið heldur úti harðvítugri samkeppni – mjög svo ójöfnum leik – við bæði þessi fyrirtæki, samkeppni sem í raun stenst vart löggjöf sama ríkisvalds um samkeppnisreglur. Deiglan treystir sér til að fullyrða að tilkoma beggja þessara aðila hafi auðgað íslenska menningu til muna. En ef fram fer sem horfir munu þessir aðilar verða undir í samkeppni við stofnanir ríkisvaldsins – þeirra framlag mun þá tilheyra menningarsögu Íslands en ekki samtímanum.

Það er kaldhæðnislegt að jafnvel þegar flokkur einkaframtaksins hefur farið með stjórn menningarmála í heilan áratug samfellt, skuli einkafyrirtæki leggja upp laupana vegna tilvistar báknsins á sama vettvangi. Það er að sama skapi umhugsunarefni að lengra hafi þokast í frjálsræðisátt í menningarmálum þegar sami flokkur fór með þennan málaflokk á árunum 1983 til 1987, en raunin varð á sjálfum áratug frelsis og einkavæðingar.

Ekki er fyrirséð að mikilla breytinga sé að vænta í þessum efnum. Vonir standa einna helst til þess að með einhverjum hætti takist að sporna við frekari umsvifum ríkisvaldsins í menningarmálum, fremur en að beinlínis verði dregið úr þeim. Ríkisútvarpið, með sitt nauðungjald í vasanum, gerist æ heimtufrekara á auglýsingamarkaðnum um leið og nýjar hugmyndir um fleiri ríkisstöðvar vakna. Og ríkisleikhúsin kæfa hin einkareknu í krafti framlaga úr sameiginlegu sjóðum landsmanna.

Síðustu tíu ár hefur flokkur einkaframtaks og lágmarksríkisafskipta farið með stjórn menningaramála. Hvað gerist eiginlega ef þeir flokkar sem raunverulega eru hlynntir ríkisrekstri taka yfir þennan málaflokk? Hvers mega einkaðilar í menningargeiranum vænta þá?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.