Ánægjulegar skattalækkanir

Skattalækkanir þær sem ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku eru fagnaðarefni. Með þeim bætist enn ein rósin í rósum hlaðið hnappagat Davíðs Oddssonar og ríkisstjórna hans. Eins og við vitum öll er þetta ekki í fyrsta heldur þriðja meiriháttar skattalækkunin í stjórnartíð Davíðs. Geri aðrir betur.<

Skattalækkanir þær sem ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku eru fagnaðarefni. Með þeim bætist enn ein rósin í rósum hlaðið hnappagat Davíðs Oddssonar og ríkisstjórna hans. Eins og við vitum öll er þetta ekki í fyrsta heldur þriðja meiriháttar skattalækkunin í stjórnartíð Davíðs. Geri aðrir betur.

Forsenda þessarar skattalækkunar eins og þeirrar síðustu er vitaskuld ötult starf núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra síðasta áratuginn. Á þessum tíma hefur átt sér stað bylting í fjármálum ríkisins. Árangurinn er svo mikill að þrátt fyrir að útgjöld til ýmissa mikilvægra málaflokka hafi aukist verulega á síðustu árum er nú unnt að lækka skatta verulega án þess að þjónusta ríkisins sé skert eða fjárhag ríkisins stefnt í voða.

Tímasetning skattalækkananna er þar að auki afskaplega heppileg. Mjög hefur hægt á hagvexti á þessu ári og blikur eru á lofti um að samdráttarskeið sé í vændum fyrir íslenskt efnahagslíf. Með þessum skattalækkunum má segja að ríkisstjórnin sé að leggja sitt að mörkum til þess að milda þá hagsveiflu sem hagkerfið gengur í gegnum um þessar mundir.

Stærsta einstaka breytingin er lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 30% í 18%. Þessi lækkun er afar skynsamleg. Tekjuskattar á fyrirtæki eru afskaplega óheppileg tekjulind fyrir ríkið. Því er heppilegast að slíkir skattar séu lágir. Raunar væri skynsamlegt að tekjuskattur fyrirtækja miðaðist við þann kostnað sem fellur á samfélagið vegna ýmissa fríðinda sem fyrirtæki njóta. Réttur eigenda fyrirtækja til þess að takmarka ábyrgð sína með því að lýsa yfir gjaldþroti er dæmi um slík fríðindi. Eignarskattur á fyrirtæki eru þeim mun fáránlegri skattur. Heppilegast væri að hann væri lækkaður niður í núll. Helmingslækkun er skref í rétta átt.

Afnám verðbólguleiðréttinga var einnig löngu tímabær. Þær sérstöku bókhaldsreglur sem gilt hafa hér á landi varðandi verðbólguleiðréttingu hafa löngum verið þyrnir í augum erlendra fjárfesta sem margir hverjir hrista bara hausinn og nenna ekki að setja sig inn í svona vitleysu. Það er því áreiðanlega rétt sem haldið hefur verið fram að þessi breyting muni leiða til aukinnar erlendrar fjárfestingar.

Það eru hins vegar tvennar breytingar sem ég hef út á að setja. Í fyrsta lagi er óheppilegt að ákveðið hafi verið að hækka tryggingagjaldið. Að því er ég kemst næst er tryggingagjaldið ekkert annað en dulbúinn tekjuskattur. Eini munurinn er sá að hann kemur ekki fram á launaseðlinum hjá manni og því virðist hann ekki vera eins slæmur og hinn eiginlegi tekjuskattur. Hér er vitaskuld einungis um blekkingarleik að ræða og allt of margir láta blekkjast. Best væri ef tryggingagjaldinu væri öllu breytt í venjulegan tekjuskatt.

Hitt atriðið í þessum tillögum sem ég er ekkert sérlega hrifin af er lækkun eignarskatts á einstaklinga. Það er reyndar ágætismál að frítekjumarkið sé hækkað talsvert. En öðru máli gegnir um lækkun eignarskatta á þá sem eiga miklar eignir. Eingarskattar á einstaklinga draga úr misskiptingu eigna í þjóðfélaginu. Mín tilfinning er sú að misskipting eigna skapi talsverð þjóðfélagsleg og efnahagsleg vandamál og því sé heppilegt að skattkerfið vinni gegn slíkri misskiptingu.

Boðaðar skattalækkanir eru engu að síður mikið fagnaðarefni. Nú vonar maður bara að þessi ríkisstjórn haldi áfram að stjórna landinu. Þá getur maður væntanlega átt von á enn einni skattalækkuninni að fjórum árum liðnum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.