Versta hugmynd ársins?

Ríkisútvarpið er eins og blóm í eggi í Efstaleitinu. Nýjasta hugmynd yfirvalda menntamála er að kljúfa Rás 2 frá og flytja til Akureyrar. Verður maður ekki bara orðlaus yfir svona löguðu?

Baráttan fyrir sölu ríkismiðlanna hefur verið löng en án árangurs. Þó hefur fjöldi fólks eygt von vegna hugmynda um hlutafélagavæðingu þeirra. Pétur Blöndal hefur nú tekið af skarið og leggur fram á haustþingi frumvarp um sölu Ríkisútvarpsins. Þetta er frábært framtak hjá þingmanninum, sem hefur verið einn helsti talsmaður fyrir minnkandi ríkisumsvifum.

Andstæðingum þessara hugmynda barst þó í gær liðsauki þegar menntamálaráðherra viðraði hugmyndir sínar um að flytja Rás 2 til Akureyrar og gera að miðstöð svæðisútvarps. Þetta gripu helstu fylgismenn ríkismiðlana á lofti og sáu að þarna væri hægt að tefja sölu Rásar 2 um ein tíu til tuttugu ár. En það að selja Rás 2 fyrst hefur verið nokkurs konar málamiðlun „einkavæðingarsinna” í baráttunni við báknið.

Látum liggja milli hluta hvers vegna ætti að selja Rás 2 eða hvers vegna ríkisvaldið ætti ekki að reka fjölmiðla og skoðum þessa hugmynd nánar. Hugmynd ráðherrans er að nýta húsnæði og aðstöðu Ríkisútvarpsins á Akureyri og hafa þar miðstöð fyrir svæðisútvarp. Í fyrsta lagi er óljóst hvers vegna slík miðstöð þarf að vera á Akureyri, í Reykjavík er glæsileg og nánast ný aðstaða fyrir Ríkisútvarpið. Miðstöð innanlandsflugs er í Reykjavík svo ekki er það hagræði vegna ferða sem réttlætir þessa hugmynd. Auk þess er nánast hægt að reka útvarpsstöð hvar sem er, þegar tillit er tekið til nútímatækni.

Helstu talsmenn ríkismiðlanna hafa haft ýmis sjónarmið um verndun tungu og menningar að leiðarljósi. Gæti verið að óæskileg áhrif alþjóðavæðingarinnar séu orðin of mikil á höfuðborgarsvæðinu og betra sé að láta harðmælta og hreintyngda Akureyringa til að lesa landsbyggðafréttir fyrir varnarlausa áheyrendur víða um land? Hugsanlega er þetta áætlun til að frelsa starfsmenn Rásar 2 úr viðjum hins þvingaða vinnuumhverfis í Efstaleiti, en eins og öllum er kunnugt mældist Ríkisútvarpið með versta vinnuanda íslenskra fyrirtækja fyrir nokkru síðan. Besta leiðin til að frelsa þá er þó án efa að ríkisvaldið fái einhverjum öðrum reksturinn.

Í stað þess að selja Rás 2 vill menntamálaráðherra efla svæðisútvarp og að öllum líkindum auka rekstrarkostnaðinn með að dreifa rekstrinum enn meir en orðið er. Þetta hlýtur að vera ein versta og öfugsnúnasta hugmynd ársins í þessum málum og má líkja við hugmyndina um að stofna aðra ríkissjónvarpsstöð. Ég vona að ráðherra beri gæfu til að láta þessa hugmynd ekki verða að veruleika. Það er hart að aftur og aftur þurfi að mótmæla aðgerðum og hugmyndum stjórnvalda í menningarmálum. Ef ríkisvaldið á yfir höfuð að reka menningu á hún tvímælalaust að vera neðst á forgangslistanum.

Þessi hugmynd gæti flækt umræðuna um Ríkisútvarpið enn meir en orðið er. Við sem erum hlynnt sölu Ríkisútvarpsins hljótum þó að vona að hugmyndin sé hluti áætlunar ráðherra um að ná sátt um söluna innan ríkisstjórnarinnar, þótt það sé líklega langsótt. Hvað sem því líður er öruggt að öllum rekstri fjölmiðla og menningar er best komið hjá einkaaðilum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)