Ummæli kynþáttahatara

Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ungs kynþáttahatara hafa vaknað ýmsar gagnrýnisraddir. Í dag fjallar Deiglan mjög ítarlega um þessa gagnrýni.

Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ungs kynþáttahatara hafa vaknað ýmsar gagnrýnisraddir. Megingagnrýnin gengur út á það að grundvallarmannréttindi sakbornings til tjáningarfrelsis hefðu átt að leiða til sýknu. Hins vegar hefur einnig heyrst að ekki hefði átt yfir höfuð að ákæra í málinu og fyrst ákært var þá hefði DV einnig átt að vera ákært. Þessar spurningar um ákærur eru vel þess virði að fjallað sé um þær.

Átti að ákæra?

Hvað varðar fyrstu spurninguna um hvort það hefði átt að ákæra í málinu þá er það sjónarmið byggt á veikum grunni. 233 gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1944 segir að:

Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Þessi lagagrein er afdráttarlaus. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu skv. 25. gr. laga um meðferð opinbera mála nr. 19/1991. Samkvæmt 27. gr. sömu laga kemur fram að Ríkissaksóknari eigi að sjá til þess að þeir sem fremji afbrot verði beittir lögmæltum viðurlögum. Ríkissaksóknari er ekki kosinn í kosningum heldur skipaður af framkvæmdarvaldinu. Út frá sjónarmiði réttaröryggis væri stórhættulegt ef framkvæmdarvaldið tæki sér vald til að ákveða að fyrir brot á vissum brotaflokkum yrði ekki ákært. Til að tryggja réttaröryggi verður það að vera nokkuð ljóst að ákæruvaldið ákæri fyrir brot á lögum. Það er eflaust einhver brotalöm á því að ákæruvaldið ákæri fyrir öll brot, sérstaklega þegar litið er til þess aragrúa nýrra laga sem streyma sífellt frá löggjafanum en þegar um er að ræða mikilvæg lagaákvæði sem eiga að vernda minnihlutahópa þá verður þetta að vera á hreinu. Hins vegar stendur eftir hvort jafn víðtæk lagagrein á rétt á sér.

Átti að ákæra dagblaðið?

Hvað varðar spurninguna um það hvort ákæra hefði átt DV þá er sú spurning eðlileg. Hægt er að færa rök fyrir því að ef DV hefði ekki notið við þá hefði brotið ekki verið framið. Þetta er reyndar undirstrikað í héraðsdóminum sjálfum sem metur það sakborningnum til refsilækkunar að hann hefði ekki haft frumkvæðið að viðtalinu sjálfur heldur hafi DV haft samband við hann. Svarið við þessari spurningu er að finna í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 22. ágúst 1994.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lokaorðið varðandi brot á Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem Ísland er aðili að og hefur hann löngum verið talinn hafa ákveðið “stjórnarskrárígildi”. Árin 1993-1994 tók dómstólinn fyrir mál Jersild gegn Danmörku í máli nr. 36/1993/431/510. Jersild þessi var þekktur sjónvarpsmaður í Danmörku og sá um vinsælan sunnudagsþátt (d. Søndagsavisen). Þann 21. júlí 1985 var birt viðtal í þætti Jersilds viðtal við kynþáttahatara sem kölluðu sig grænjakka (d. grønjakkerne). Í þessu viðtali komu fram ýmiss miður gáfuleg ummæli um aðra kynþætti eins og í viðtali DV við íslenska kynþáttahatarann. Grænjakkarnir voru þó mun grófari sem markast líklegast af því að viðtalið var mun lengra. Þeir voru þó á sömu línu þ.e. veltu sér upp úr útliti og uppruna annarra kynþátta og komu fram með kenningar um mismunandi erfðafræðilegan uppruna hvítra og annarra kynþátta.

Ummæli grænjakkana vöktu upp óhug í Danmörku og lét m.a. biskupinn í Álaborg til sín taka og kvartaði yfir þættinum til dómsmálaráðherra Danmerkur. Að endingu
voru grænjakkarnir sem tóku þátt í viðtalinu ákærðir. Grænjakkarnir voru ákærðir fyrir brot á 266. gr. (b) á hegningarlögum Dana (d. Straffeloven) vegna ummælanna.
Einnig var Jersild og fréttastjóri Danmarks Radio, Lasse Jensen, ákærðir fyrir hlutdeild í brotinu með því að aðstoða mennina með sýningu viðtalsins. Umrædd 266.
gr. (b) dönsku hegningarlaganna er nokkurn veginn eins og 233. gr. a. í íslensku hegningarlögunum en íslenski kynþáttahatarinn var dæmdur á grundvelli þeirra. Við
tók sakamál í Danmörku sem endaði þannig að Hæstiréttur Dana sakfelldi Jersild fyrir að hafa gert þáttinn ásamt fréttastjóranum en grænjakkarnir höfðu verið sakfelldir í
undirrétti og kusu að áfrýja ekki málinu.

Jersild hélt því fram að ákvæði 10. gr. MSE um tjáningarfrelsi hefðu verið brotin með sakfellingu hans og kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að 10. gr. hefði verið brotin á Jersild og vann hann málið. Danska ríkið þurfti að greiða Jersild bætur vegna málsins. Dómurinn sagði að tjáningarfrelsi væri einn af hornsteinum lýðræðis og vísaði sérstaklega til fjölmiðla í því sambandi. Dómstóllinn tók fram að mjög ríkar ástæður verði að vera til þess að blaðamanni sé refsað fyrir útbreiðslu á því sem viðmælandi hans segir í viðtali því annars væri framlag blaðamanna til mála sem varða almannahagsmuni verulega skert.

Ljóst er af þessu dómafordæmi að ef DV hefði verið kært fyrir hlutdeild í broti kynþáttahatarans þá eru yfirgnæfandi líkur á því að DV hefði verið sýknað ef það hefði kosið að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Skiptir þar mestu að ummæli Íslendingsins voru minna meiðandi en ummælin sem Jersild var ákærður fyrir að útbreiða og réttur blaðamanna hefur síst minnkað frá því að dómurinn í Jersild-málinu var kveðinn upp. Það verður að teljast líklegt að ákæruvaldið hafi haft þennan dóm til hliðsjónar þegar ákvörðun var tekin um að ákæra eingöngu kynþáttahatarann en ekki DV fyrir að útbreiða fáránlegar skoðanir hans.

Þess ber að geta að eftir bestu vitund undirritaðs var dönsku lögunum breytt verulega eftir dóminn.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.