Fulltrúar sérhagsmuna eru við völd

Tíu ára uppgangstíma er lokið og Bush vill af því tilefni hraða örvunapakka fyrir hagkerfið sem samanstendur meðal annars af tillögum um að endurgreiða stórfyrirtækjum milljarða dollara af þeim sköttum sem þau hafa greitt síðustu ár. Þessi ríkisstjórn er hreint ótrúleg.

Þá er það staðfest. Lengsti uppgangstími í sögu Bandríkjanna er lokið. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs drógst landsframleiðsla í Bandríkjunum saman um 0,4% á ársgrundvelli. Þetta er í fyrsta skipti síðan Bush eldri var við völd sem VLF dregst saman svo einhverju nemur. Flestir voru reyndar hissa hversu lítið dró úr framsleiðslunni, en strax í gær var ljóst að þessar fyrstu tölur voru að öllum líkindum verulega ofáætlaðar.

Bush yngri var fljótur til. „Þetta eru erfiðir tímar hér í Bandaríkjunum. Fólk er að missa vinnuna, og ég hef áhyggjur af þessu.” Bað hann þingið að hraða meðferð „örvunarpakka” sem ætlað er að vinna gegn niðursveiflunni.

Nýtt skattalækkanafrumvarp hefur reyndar nú þegar verið naumlega samþykkt í fjárlaganefnd neðrideildar þingsins. Því er haldið fram af flutningsmönnum frumvarpsins að því sé ætlað að vinna gegn niðursveiflunni. En ekkert í frumvarpinu bendir til þess að svo sé í raun. Þvert á móti virðist flest í frumvarpinu ganga gjörsamlega í berhögg við þetta yfirlýsta markmið.

Til þess að skattalækkanir gagnist í því að tempra niðursveiflu er best að þær séu tímabundnar, að þær veiti fólki og fyrirtækjum aukinn hvata til þess að eyða, og að þær renni til þeirra sem niðursveiflan hefur mest áhrif á (þ.e. lágtekjufólks og þeirra sem missir vinnuna). Frumvarp neðrideildarinnr er þvert á móti uppfullt af varanlegum skattalækkunum til hátekjufólks og stórfyrirtækja sem að stærstum hluta gagnast engum þar til niðursveiflan er löngu genginn um garð.

En það er fleira sem er merkilegt við þetta frumvarp en að það gagnist ekki gegn niðursveiflunni. Frumvarpið gengur nefnilega lengra en flest önnur í því að þóknast þröngum sérhagsmunum sem tengjast Bush forseta. Eitt af því sem frumvarpið gerir ráð fyrir er að fyrirtækjum sem greitt hafa hinn svokallaða „corporate alternative minimum tax” síðan hann tók gildi árið 1986 verði endurgreitt allt það sem þau hafa greitt. Þetta þýðir að fyrirtæki á borð við IBM, GM og Ford munu á næstunni fá ávísanir frá bandaríska ríkinu upp á mörg hundruð milljónir dollara.

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þessi tiltekni skattur var settur á árið 1986 sem hluti af allsherjarhreingerningu skattkerfisins. Skattkerfið var þá orðið uppfullt af gloppum (e. loopholes) og sérstökum undanþágum fyrir sérhagsmunahópa. Ákveðið var að lækka skatta verulega en í staðin stoppa upp í öll götin á því með þessum lágmarksskatti. Það er því ljóst að fyrirtækin sem hagnast mest á afnámi þessa skatts eru þau fyrirtæki sem nutu mestra fríðinda innan kerfisins fyrir árið 1986. Þetta skýrir þá annars undarlegu staðreynd að á listanum yfir þau fyrirtæki sem mest fá endurgreitt eru annars vegar stórfyrirtæki á borð við GM, GE og Ford og hins vegar mun minni fyrirtæki í orkugeiranum sem af einhverri tilviljun hafa nánast öll aðsetur í Texas. Fyrirtæki á borð við TXU, Chevron Texaco, Enron og Phillips Petrolium.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.