Kona í offramboði

Það blæs ekki sérstaklega byrlega fyrir framboði Nýs Afls þessa dagana. Í gær heyrðust fréttir af því að konan sem skipar tíunda sæti listans í Norðausturkjördæmi hafi í raun engan áhuga á að vera í framboði fyrir flokkinn, og lýsti því meira að segja yfir að hún hygðist ekki kjósa hann. Forsvarsmenn framboðsins hafa hins vegar látið sér fátt um aðfinnslur frambjóðandans finnast og halda sínu striki.

Í sumum stjórnmálaflokkum er ákaft keppst um að komast á framboðslista fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Sumir flokkar hafa þá hefð að láta flokksmenn kjósa á milli frambjóðenda og aðrir skipa uppstillingarnefndir sem gera upp á milli fjölda mögulegra frambjóðenda og setja svo fram lista. Í hinu nýja framboði Nýs Afls er þessu hins vegar öfugt farið. Kristín Þóroddsdóttir, sem skipar tíunda sæti framboðslistans í Norðausturkjördæmi, hefur lýst því yfir að hún hafi ekki talið sig vera að fara í framboð þegar hún skrifaði undir pappír sem otað var að henni fyrir nokkrum dögum. Hún taldi sig vera að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við framboðið. Nú er hún hins vegar hætt við að kjósa framboðslistann sem í ljós hefur komið að hún sjálf er á.

Þessi ólánssama kona er því meira í framboði heldur hún ætlaði sér. Hún er eiginlega í offramboði. Það er svosem ekki svo furðulegt, enda hefur verið sagt um framboð Nýs afls að það sé samansafn fólks sem hafi í gegnum tíðina verið meira framboð af en eftirspurn, svo vitnað sé í ritstjóra Fréttablaðsins.

Á heimasíðu Nýs afls segir hins vegar ekkert um að framboðið sé til þess eins að vekja athygli á fólki í offramboði. Þar er sagt að Nýtt afl sé “baráttusamtök fólks fyrir nútímalegu lýðræðis- og jafnréttisþjóðfélagi gegn sérhagsmunum, spillingu, skattpíningu og sóun.”

Á heimasíður Nýs afls segir einnig þetta: “Nýtt Afl er samtök fólks er starfað hefur og fylgt ýmsum stjórnmálaflokkum en rís nú upp til þess að mótmæla öfugþróun þjóðfélagsins á undanförnum misserum.” Þessi mikla upprisa viðist í einhverjum tilvikum hafa gengið heldur langt og má segja að í Norðausturkjördæmi hafi nýtt afl hreinlega ofrisið og sporðreists. Þar verður a.m.k. erfitt að sannfæra kjósendur um eitt helsta kosningamál Nýs afls sem er: “Nýtt Afl vill auka lýðræði á öllum sviðum með því að vísa ágreiningsmálum til þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Nýtt Afl vill að fólk eigi jafnan kost á að taka ákvarðanir um hagsmunamál sín.”

Já – Nýtt afl vill að fólk eigi jafnan kost á því að taka ákvarðanir um hagsmunamál sín. Það er líklegt að Kristín Þóroddsdóttir verði framarlega í fylkingu þeirra sem leggja vilja áherslu á þetta tiltekna mál, enda er hún í framboði – hvort sem henni líkar betur eða verr.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.