Ábyrgðarlausir tölvusalar?

Nýlega gengu í gildi reglur um neytendaábyrgð, sem skylda söluaðila raftækja, svo sem tölva, til að ábyrgjast selda vöru í tvö ár frá sölu. Skilmálar þessara ábyrgða eru þó mismunandi og ganga sumir tölvusalar hart fram í því að reyna að losna undan þeim.

Reglur um tveggja ára neytendaábyrgð raftækja eru mikilvægt skref í réttindamálum neytenda hér á landi og hafa flestir söluaðilar tekið vel í þessa breytingu. Enda er eðlileg og skýr krafa að raftæki endist í a.m.k. tvö ár og eðlilegt að söluaðilinn taki á sig áhættu af gölluðum vörum. Söluaðilar geta þá kannað gæði vörunnar og boðið vöru sem bilar síður, en mjög erfitt er fyrir neytendur að grafa upp upplýsingar um bilanatíðni rakvéla, til dæmis.

En sumir vilja ekki bera þessa ábyrgð og hafa nokkrir tölvusalar gripið til þess ráðs að setja innsigli á borðtölvur sem þeir selja, með viðvörun um að ábyrgðin falli gildi ef kassinn er opnaður og innsiglið rofið. Þetta veldur því að ef bæta á við minni, geisladiskaskrifara eða öðrum aukahlutum sem ekki var hugsað fyrir í upphafi hefur kaupandinn aðeins um tvennt að velja. Kaupa aukahlutina hjá upprunalegum söluaðila og borga honum fyrir að setja þá í, eða rjúfa innsiglið og missa ábyrgðina.

Tölvur eru viðkvæm tæki og sjálfsagt er að vara kaupandann við því að tjón sem hann veldur sé utan ábyrgðar. Hér er hins vegar um mun víðtækari hömlur að ræða og tilgangurinn í meira lagi vafasamur.

Könnun hjá helstu söluaðilum tölva á Íslandi leiddi í ljós að þrír aðilar setja slík innsigli á tölvurnar. Tveir þeirra segja að ákvæðið sé tekið alvarlega og að um undantekningar sé ekki að ræða. Þetta eru fyrirtækin Hugver og Tæknibær. Nýherji setur einnig slíka límmiða á sínar vélar en segir að hægt sé að fá undanþágu frá ákvæðinu berist um það beiðni frá kaupandanum.

Þeir sem haft var samband við og setja ekki slíka miða á sínar tölvur eru fyrirtækin ATV, BT, EJS, Opin Kerfi, Tölvulistinn og Tölvuvirkni. Afstaða þessara fyrirtækja er mismunandi. Sumir hafa áður sett slíka miða á vélarnar en eru hættir því, aðrir eru að hugsa um að byrja á þessum ósið.

Flestir eru þó á móti slíkum innsiglum og sagði talsmaður eins fyrirtækisins að honum væri „hjartanlega sama“ þótt menn opnuðu tölvurnar sínar. Sá sem varð fyrir svörum hjá öðru fyrirtæki gekk jafnvel lengra og sagði að slíkt myndi aldrei koma til greina hjá hans fyrirtæki, enda væri þetta aðeins leið óprúttinna tölvusala til að hafa fé af fólki eftir fyrstu að salan væri frágengin. Hann vísaði þá til þess að nauðsynlegt er að borga söluaðilanum fyrir allar ísetningar, vilji menn viðhalda ábyrgðinni.

Allir sem eru að kaupa tölvu ættu að spyrja hvort tölvusalinn innsigli seldar tölvur og snúa sér annað ef svo er. Þannig geta menn forðast að kaupa köttinn í sekknum og jafnframt lagt sitt af mörkum til að útrýma slíkum innsiglunum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)