Kristileg kúgun

Allt bendir til þess að páskar í ár verði með sama sniði og undanfarin ár með föstum atriðum eins og gómsætum páskaeggjum, kærkomnum frídögum og fasískum takmörkunum á opnunartíma skemmtistaða og veitingahúsa.

Allt bendir til þess að páskar í ár verði með sama sniði og undanfarin ár með föstum atriðum eins og gómsætum páskaeggjum, kærkomnum frídögum og fasískum takmörkunum á opnunartíma skemmtistaða og veitingahúsa.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur fyrirskipað að í allan dag og á páskadag milli 03:00 og 24:00 séu allar skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, bannaðar. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur spil fara fram. Hins vegar sér lögreglan ástæðu til að taka sérstaklega fram að hún geri náðasamlega ekki athugasemdir við lágværa tónlist eða flutning sjónvarpsefnis á veitingastöðum þessa daga, enda sé guðsþjónusta, kirkjuathöfn eða annað helgihald ekki truflað.

Embætti lögreglustjóra sækir þessa valdheimild sína til laga um helgidagafrið nr. 32/1997. Þar kemur fram að markmið laganna sé að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar. Í lögunum kemur fram að næstum öll starfsemi er leyfileg á þessum dögum nema almenn verslun, bankastarfsemi og náttúrulega allar skemmtanir. Sem dæmi má nefna að bensínstöðvar, sjoppur, myndbandaleigur og blómabúðir mega allar vera opnar á þessum dögum. Það er alveg óskiljanlegt hvernig löggjafinn og þjóðkirkjan komust að þeirri niðurstöðu að skemmtanahald væri ein helsta ógn við helgihaldið á þessum dögum.

En ekki er öll vitleysan eins þegar menn eru á annað borð byrjaðir með svona afskiptasemi. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að bannið við happdrættum, bingó og öðrum spilum nái eingöngu til spilastarfsemi þar sem spilað er um fjármuni með einum eða öðrum hætti. Hins vegar sé ekki verið að leggja höft á ýmsa aðra starfsemi sem fram fer á tilgreindum dögum, svo sem bridsmót, skákmót eða slíka starfsemi. Löggjafinn er sem sagt farinn að leggja efnislegt mat á hvaða spil borgararnir megi spila á helgidögum!

Við megum ekki gleyma að þrátt fyrir að evangeliska lútherska kirkjan sé þjóðkirkjan hér á landi þá er engu að síður trúfrelsi ríkjandi skv. 62 gr. og 63. gr. stjórnarskár. Það verður því að teljast alveg stórfurðulegt að við sjáum ástæðu til að troða helgidögum evangelisku lúthersku þjóðkirkjunnar inn á alla hérlendis burt séð frá trúar- og lífsskoðunum þeirra. Það þjónar nákvæmlega engum vitrænum tilgangi. Hverjum væri ekki sama þótt trúleysingar, múslímar eða einhverjir aðrir myndu hafa stórmarkað opinn á föstudaginn langa eða krá á páskadag?

Það er furðulegt að þessi boð og bönn skuli vera það sem einna helst minnir okkur ríkistrúina hér á landi. Samkvæmt þeim kristnu trúarkenningum sem eru kenndar í íslenska menntakerfinu eru meginstoðir trúnnar umburðarlyndi og fyrirgefning. Ekki er að sjá að þessi kristnu viðhorf hafi verið í heiðri höfð þegar þessari kúgun í nafni trúnnar var komið á. Ef menn halda að svona lögþvinganir stuðli að uppgangi kristinnar kennisetningar þá eru þeir á villigötum. Þvinganir í nafni trúarbragða eru þeim alltaf til háborinnar skammar!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.