Auglýsingar flokkannaNú er farið að styttast í kosningar og hafa áherslur flokkanna verið misjafnar hvað áherslu í auglýsingamálum varðar.Nú eru auglýsingar flokkanna að verða komnar á fullt fyrir kosningarnar. Flokkarnir standa frammi fyrir stórum ákvörðunum, ásamt auglýsingastofum þeirra, á hvað á að leggja áherslu á. Auglýsingar kosta mikið og mikið liggur við að þær skili sér til kjósenda. Kosningastjórar flokkanna hafa legið yfir því með auglýsingastofum sínum og PR mönnum hvað leggja skuli áherslu á.

Kostirnir eru fjölmargir, möguleikar eru fyrir flokkana að eyða auglýsingafénu í sjónvarpsauglýsingar, blaðaauglýsingar, tímaritaauglýsingar, póstdreifingu á markhópa, útiauglýsingar, auglýsingar á netinu svo eitthvað sé nefnt.

Ekki nóg með að flokkarnir þurfi að ákveða miðlana heldur þarf líka að velja áherslu í auglýsingunum. Hvaða auglýsingar hafa áhrif á kjósendur? Eiga auglýsingarnar að vera alvarlegar eða fyndnar? Á að koma mikið af upplýsingum eða eiga þær að vera stuttar? Á að leggja áherslu á einhverjar persónur? Eiga málefni flokksins að vera í fyrirrúmi eða á koma með gagnrýni á aðra?

Þegar auglýsingarnar eru skoðaðar kemur í ljós mikill munur á þeim stefnum sem flokkarnir hafa tekið og þeim fjármunum sem flokkarnir eru að eyða í auglýsingar.

  • Framsóknaflokkurinn hefur keyrt á mjög fyndnum sjónvarpsauglýsingum. Hefur aðaláherslan verið á húsnæðiskerfið. Auk þess hafa þeir eytt miklu í auglýsingar á öðrum miðlum.
  • Samfylkingin hefur verið með mjög stórar blaðaauglýsingar, þar sem lögð hefur verið áhersla á persónuna Ingibjörgu Sólrúnu. Ofuráhersla hefur verið lögð á að ná til kvenna og hamra á því hversu lengi Davíð Oddsson hefur verið við völd.
  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með auglýsingar þar sem áhersla hefur verið lögð á skattamál, fjölskyldumál og árangur flokksins.
  • Frjálslyndi flokkurinn hefur auglýst málefni sín og að þeir lofi ekki meira en þeir treysti sér til að standa við.

  • Vinstri Grænir hafa minnst auglýst en þeir virðast hafa lagt mesta áherslu á frambjóðendur flokksins.

Menn hafa lengi deilt um hversu mikil áhrif auglýsingar hafa á fólk. Eftir kosningar verður hægt að velta fyrir sér hvort auglýsingar flokkanna hafi skilað sér í kjörkassana eða hvort það að auglýsa lélega vöru hafi einfaldlega vakið athygli á því hversu léleg hún er.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.