Ný forysta í Stúdentaráði

Ný forysta tók við stjórnartaumunum í Stúdentaráði Háskóla Íslands á skiptafundi ráðsins í gær. Brynjólfur Stefánsson lætur nú af störfum sem formaður ráðsins eftir farsælt starf en Davíð Gunnarssson tekur við.

Árlegur skiptafundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands fór fram í gær. Brynjólfur Stefánsson lét þá formlega af embætti eftir farsælt starf í þágu nemenda Háskólans. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hefur í vetur uppfyllt þær væntingar sem gerðar voru til félagsins þegar það tók við ráðinu þann 15. mars í fyrra. Undir forystu Brynjólfs hafa mörg verkefni verið farsællega til lykta leidd í vetur.

Til að mynda náðist fram síðasta vor einhver mesta hækkun grunnframfærslu sem sögur fara af og tenging námslána við tekjur maka var afnumin á sama tíma. Prófasafn fyrir nemendur Háskólans var opnað á netinu og sátu félagsmenn í Vöku við að skanna þau inn, blað fyrir blað. Sólarhringsopnun í Odda sýndi fram á þörfina fyrir lengri opnunartíma og leiddi til þess að brátt verða tekin í notkun aðgangskort í helstu byggingum Háskólans. Þannig mætti áfram telja.

Stúdentar sýndu þakklæti sitt verki þegar kosningar fóru fram. Vaka vann þá einn stærsta sigur í sögu félagsins og hlaut tæp 1900 atkvæði af um 3600, nánar tiltekið 53% atkvæða, og þó hafði framboð með nýjar áherslur komið fram. Munurinn á Vöku og Röskvu var tæp 600 atkvæði sem þýðir að verk Vöku í vetur hafa gjörbreytt því landslagi sem einkenndi Stúdentapólitíkina til margra ára.

Davíð Gunnarsson, hagfræðinemi, tekur við formennsku af Brynjólfi í Stúdentaráði og hefur stóran hóp af fólki sér til halds og trausts. Líkt og á sama tíma í fyrra eru miklar vonir bundnar við nýja forystu og það nýja fólk sem nú hefur fengið sæti í ráðinu. Deiglan óskar þeim velfarnaðar í starfi sínu í vetur.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)