Löggilt svindl

Í gær bárust fréttir af óhemjumikilli óreiðu hjá Löggildildingarstofu og að líklega þurfi forstjórinn að víkja. Löggildingarstofan er lítil ríkisstofnun sem virðist hafa komist áreitislaust upp með stórfellda óreiðu og vekur það óneitanlega upp spurningar hvort fleiri slíkar stofnanir komist upp með hið sama.

Í gær bárust þær fréttir að óhemjumikil óreiða hjá Löggildingarstofu muni líklega leiða til þess að forstjóra stofnunarinnar verði vikið úr starfi.

Þegar ég las þetta átti ég í fyrstu von á því að einhver brotalöm væri á rekstrinum, að um einhvers konar bókhaldsóreiðu væri að ræða. Ekki var ég búinn að lesa mjög langt þegar ljóst varð að mun umfangsmeira mál var á ferðinni, en að fáeinar nótur hefðu týnst.

Svo virðist sem stofnunin hafi í skjóli eftirlitsleysis náð að sópa til sín ótrúlegum fjárhæðum. Meðal annars var keypt mikið af búnaði sem ekki hefur allur komið í leitirnar, 57 farsímar handa tuttugu starfsmönnum vekja líka athygli. Starfsmennirnir virðast einnig hafa verið mjög duglegir að ferðast en risnan hjá þessum sömu tuttugu starfsmönnum hefur verið á bilinu 11 til 12 milljónir á ári!

Ekki dregur úr undruninni þegar kemur að verkatakastörfum en svo virðist sem stór hluti vinnufærra einstaklinga í fjölskyldu skrifstofustjóra stofnunarinnar hafi verið kominn á verktakalaun hjá stofnuninni. Sjálfur þurfti hann ekki að kvarta eftir að hafa verið hækkaður í efsta launaflokk á meðan hann var í veikindum.

Forstjórinn hefur verið settur á ís á meðan nefnd fer í gegnum málið. Það er athyglisvert að honum skuli ekki hafa verið sparkað á staðnum í ljósi þess sem nú þegar hefur komið í ljós. Næsta skref í þessu máli ætti að vera athugun á því hvort lögsækja ætti manninn frekar en að velta því fyrir sér hvort hann eigi að halda starfi sínu hjá stofnunni.

Það virðist vera sama hvar drepið er niður fæti hjá þessari stofnun, alls staðar er eitthvað úr skorðum. Þetta fámenna ríkisfyrirtæki virðist hafa fengið að starfa óáreitt af hálfu eftirlitsstofnana ríkisins. Maður veltir þó fyrir sér hvað hafi rekið eftirlitsstofnanirnar af stað að lokum. Var það reglubundið eftirlit eða spurðust þessar ótrúlegu athafnir út að lokum? Hvort sem var þá er full ástæða til að velta þeirri spurningu upp innan hversu margra stofnana eitthvað svipað gæti verið í gangi og það aldrei komist upp ef stjórnendurnir fara ögn gætilegar að.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.