Opinber stefna – Opinbert bókhald

Það er í raun jafn fáránlegt fyrir stjórnmálaflokk að gefa ekki upp upplýsingar um fjármögnun sína eins og að gefa ekki upp stefnu flokksins í einstökum málum. Hvað þætti okkur til dæmis um það ef að Vinstir grænir neituðu að gefa upp afstöðu sína í mannréttindamálum eða Frjálslyndir í jafnréttismálum? Þeim fyndist kannski bara að almenningi kæmi afstaða þeirra ekkert við en segðu jafnframt að við stefnu þeirra í þessum málum væri ekkert að athuga.

Undanfarna tíu daga höfum við fylgst með atburðarás sem er lítið annað en dapurleg fyrir nær alla þá aðila sem að komu. Þeirri atburðarás verður ekki gerð skil hér en mitt í þeirri orrahríð skaut aftur upp kollinum umræðan um fjármál stjórnmálaflokka sem hér verður fjallað eilítið um.

Samfylkingin hefur hingað til leitt þá umræðu að opinbera skuli fjármál stjórnmálaflokka og Sjálfstæðisflokkurinn er þar ævinlega á móti. Þessi umræða hefur nú sprottið aftur í framhaldi af því að Sjálfstæðismenn hafa leitt að því líkum að ákveðin fyrirtæki haldi uppi starfsemi Samfylkingarinnar. Samfylkingarmenn hafa svo á móti gefið í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitthvað að fela og því beri að setja lög um fjármál stjórnmálaflokka. Sem sagt sama þvælan, annar dagur og almenningur hristir hausinn.

Auðvitað ber okkur skylda til að setja lög um fjármál stjórnmálaflokka. Þetta er spurning um leikreglur til framtíðar. Til þess að fá heildarmynd af starfssemi og stefnu stjórnmálaflokks er nauðsynlegt að vita hvort hann sé fjármagnaður á eðlilegum forsendum og samkvæmt þeim leikreglum sem samfélagið setur. Það er í raun jafn fáránlegt fyrir stjórnmálaflokk að gefa ekki upp upplýsingar um fjármögnun sína eins og að gefa ekki upp stefnu flokksins í einstökum málum. Hvað þætti okkur til dæmis um það ef að Vinstir grænir neituðu að gefa upp afstöðu sína í mannréttindamálum eða Frjálslyndir í jafnréttismálum? Þeim fyndist kannski bara að almenningi kæmi afstaða þeirra ekkert við en segðu jafnframt að við stefnu þeirra í þessum málum væri ekkert að athuga!

Hvað er til dæmis í vegi fyrir því að erlendir aðilar geti haldið uppi íslenskum stjórnmálaflokki og beitt þannig áhrifum sínum? Það er ábyggilega lítil ástæða til að óttast slíkt í dag, en hugsanlega hefur slíkt átt sér stað á Sovéttímanum? Erlendir aðilar mega ekki fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi en Impreglio gæti þess vegna fjármagnað Framsóknarflokkinn án þess að nokkur vissi af því.

En þetta er erfitt mál og hugsanlegt að allir stjórnmálaflokkar myndu skaðast lítillega við það að opna fjármál sín. Samfylkingin virðst reyndar trúa því að hún hagnist á aðgerðinni. En lög um fjármál stjórnmálaflokka þyrftu auðvitað að vera þannig gerð að þau kæmu í veg fyrir öll framhjáhlaup og óeðliega afslætti. Því miður virðist Samfylkingin ekki hafa kjark til þess að ríða á vaðið og opinbera sitt bókhald. Slíkt myndi nefnilega setja þrýsting á alla hina flokkana.

Sjálfstæðisflokkurinn þráast hins vegar við og vísar meðal annars til þess að Kohl og Kristilegi Demókrataflokkurinn hafi orðið uppvís að spillingu þrátt fyrir ströng lög þar í landi um fjármál stjórnmálaflokka. Þessi rök halda auðvitað ekki vatni og okkur Sjálfstæðismönnum væri nær að þrýsta á um breytingar á þessu innan flokksins. Enda er pistlahöfundur þess fullviss að aðgerðin myndi hafa lítil áhrif ef allir flokkar opnuðu bókhald sitt í einu eftir kosningar, það er líka margt sem bendir til þess að nú sé rétta tækifærið.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)