Segð’u ekki nei, segðu kannski, kannski, kannski…

Á mánudaginn gáfu Frakkar út tilkynningu þess efnis að þeir hygðust beita neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna líkt og Rússar hafa ákveðið að gera. Það er því ljóst að a.m.k. tvær, jafnvel þrjár ef Kínverjar verða líka á móti, af þjóðum öryggisráðsins munu beita neitunarvaldi gegn samþykki um innrás Bandaríkjanna í Írak.

Á mánudaginn gáfu Frakkar út tilkynningu þess efnis að þeir hygðust beita neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna líkt og Rússar hafa ákveðið að gera. Það er því ljóst að a.m.k. tvær, jafnvel þrjár ef Kínverjar verða líka á móti, af þjóðum öryggisráðsins munu beita neitunarvaldi gegn samþykki um innrás Bandaríkjanna í Írak.

Miðað við þær fréttir sem hafa borist hingað heim af málinu verður tillaga lögð fyrir SÞ um að leyfa Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra að ráðast inn í Írak hafi Írakar ekki afvopnast fyrir 17. mars. Það er því verið að gefa Írökum rétt tæpa viku til að afvopnast. Nú hefur pistilhöfundur aldrei þurft að afvopnast, hvorki nauðbeygður né samþykkur, og veit því lítið um þann tíma sem svoleiðis atburður tekur. Hann gerir þó að því skóna að erfitt sé að afvopnast á innan við einni viku, allavega er erfitt að fá húsbréfalán á þeim tíma – hvað þá að afvopnast!

Írakar munu því ekki afvopnast fyrir 17. mars, eins og skilyrði Bush og Blair kveða á um. Það verða því að teljast yfirgnæfandi líkur á því að ráðist verði á Írak. M.a.s. er líklegt að það verði gert þó að öryggisráð SÞ samþykki ekki hernaðaraðgerðir gegn Írökum. Stríð án stuðnings SÞ er því meira en líklegur möguleiki. Verði það raunin hlýtur það að draga stórum úr trúverðugleika SÞ sem gæti jafnvel haft enn alvarlegri afleiðingar í för með sér þar sem hætta væri á skertri þátttöku Bandaríkjamanna í starfi SÞ. Bandaríkin greiða langmest allra til SÞ og því ljóst að hyggist þeir endurskoða afstöðu sína til SÞ munu samtökin ekki verða eins sterk eftir á. Hvað væru Sameinuðu Þjóðirnar án þátttöku mesta stórveldis heims í dag? Þær myndu hljóma heldur hjákátlega og missa af miklu leyti þau tækifæri sem þær hafa til að beita áhrifum á þróun heimsmálanna.

Spurningin er hvort þjóðir Evrópu óttist afstöðu Bandaríkjanna. Munu Frakkar og Þjóðverjar hætta á að samskiptum við Bandaríkin og samstarfi innan SÞ verði stefnt í hættu með því að vera eindregið á móti innrás í Írak? Bandaríkjamenn hafa hesthúsað evrópskan varning á undanförnum árum. Gríðarlegur viðskiptahalli í Bandaríkjunum hefur svo gott sem komið í veg fyrir kreppu í löndum Evrópusambandsins. Það hefði því mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir efnahag Evrópu ef að Bandaríkjamenn tæku t.a.m. upp á því að tolla evrópskan varning svipað og þeir gerðu með stálið í fyrra. Það má jafnvel ýja að því að Bandaríkjamenn muni kaupa sér “rétta” afstöðu, með beinum eða óbeinum hætti. Þeir hafa þegar lofað Tyrkjum 30 milljörðum dollara fyrir að leyfa sér að ráðast að Írökum úr norðri frá landamærum Tyrklands og Írak. Nokkrir milljarðar til viðbótar eða slökun á innflutningshöftum, eða loforð um að beita þeim ekki, gætu skipt sköpum um afstöðu annarra þjóða SÞ.

Pistilhöfundur er ansi hræddur um að á næstu dögum verði soðin saman tillaga sem öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna mun samþykkja. Þessi tillaga mun heimila hernaðaraðgerðir gegn Írak í nánustu framtíð, ef að Írakar uppfylla ekki skilyrði sem þeir geta ekki með neinu móti uppfyllt.

Ef ekki verður komist hjá stríði er í það minnsta vonandi að það verði hægt að lágmarka fall óbreyttra borgara í yfirvofandi átökum og að ástandið í Írak verði fært í lýðræðislegra horf með batnandi lífskjörum fyrir þegna þjóðarinnar eftir stríð. Því miður er þetta líklega það eina sem hægt er að biðja um eins og staðan lítur út í dag.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)