Kristíanía

Undirritaður hlustaði á Spegilinn að loknum útvarpsfréttum í gærkvöldi. Þar var fjallað um aform dönsku stjórnarinnar til að bera út íbúa Fríríkisins Kristíaníu og byggja upp “alvöruíbúðahverfi” á svæðinu.

Nýlegir tilburðir dönsku stjórnarinnar eru síður enn svo nýir af nálinni. Íbúar Kristíaníu hafa oft þurft að berjast fyrir tilveru sinni og hafa áður verið gerðar fjórar tilraunir til að bera út íbúana í 30 ára sögu Fríríkisins. Þær hafa allar mistekist.

Það má segja að það sé misgott milli ára að vera Kristíaníubúi. Afstaða framkvæmdavaldsins til “tilraunarinnar” breytist með hverri stjórn svo framtíðin er ávallt óráðin. Frá því að ný stjórn hægriflokka tók við í Danmörku hefur hallað undan fæti. Lögreglan fjölgað heimsóknum sínum verulega.

Slíkar heimsóknir eru alltaf eins. Lögreglumennirnir ryðjast inn í Kristíaníu og til stimpinga kemur milli lögreglumanna og íbúa (og hunda) Fríríkisins. Lögreglan er á staðnum í um klukkutíma og gerir upptækt eitthvað magn af kannabisefnum. Korteri eftir að hún er farin eru hasskökurnar farnar að seljast að nýju.

Það er skiljanlegt að fólk skulu hafa horn í síðu manna sem gera það atvinnu sinni og lífsspeki brjóta lög samfélagsins. Það má hins vegar ekki gleyma þeim margsagða sannleik að menn eigi að vera frjálsir til að gera það sem þeim sýnist svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Kristíaníubúar hafa ekki ákveðið að sniðganga öll lög og siðferðisviðmið danska samfélagsins. Þau sniðganga bara mjög afmarkaðan hluta þeirra og um þennan afmarkaða hluta eru allir íbúar Kristíaníu sammála. Ræðukeppnarökin, “Eigum við þá ekki bara að leyfa þjófnað?” ganga því ekki upp.

Munurinn á sósíalísku alræðissamfélagi og frjálslyndu markaðsamfélagi á víst að vera sá að fólk í kapitalísku samfélagi eigi að geta tekið sig saman og stofnað kommúnu ef því svo sýnist en það gildir ekki öfugt fyrir markaðsinnað fólk sem býr í kommúnistaríki. Þetta hafa Kristíaníubúar einmitt gert.

Hitt er svo annað mál að stofnendur Kristíaníu voru margir hverjir hústökufólk og núverandi íbúar eiga því ekki húsin sem þeir búa í. Í því samhengi tel ég að Danska Ríkið hafi með aðgerðaleysi sínu í 30 ár í raun lagt blessun sína yfir eignatökuna. Gera þarf þær kröfur til ríkisvaldsins að réttarkerfið virki hratt svo fólk geti haldið áfram að lifa lífinu. Þess vegna firnast glæpir og þess vegna þykir það kappsmál að menn fá að afplána dóma sem fyrst. Það sama ætti að gilda um eignatöku á borð við þessa sem átti sér stað í Kristíaníu. Þrjátíu ára aðgerðaleysi ætti að vera nóg til að fólk vissi að Ríkið hygðist ekki vísa þeim á dyr.

Ég kom til Kristíaníu seinasta sumar. Mér fannst hún bara vera frekar notalegur staður, jafnvel á mörkum þess að vera fjölskylduvænn. Danskir krakkar hjóluðu um á fjallahjólum með Faxe Kondí í hönd. Húsin voru litskrúðug og snyrtileg og göturnar mátulega hreinar. Stemningin var afslöppuð og yfirþyrmandi ofbeldislaus. Þetta voru ekki bara útúrreyktir hippar og Jamaicabúar með dredda. Að mörgu leyti er Kristíanía einmitt eitthvað aldanskasta sem til er í Danmörku.

Ég óska henni að svo verði áfram.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.