Fimmtíu ár frá dauða Stalíns

Á morgun, þann fimmta mars, eru nákvæmlega fimmtíu ár liðin frá dauða Jósefs Stalíns, fyrrverandi einræðisherra Sovétríkjanna og eins versta fjöldamorðingja mannkynssögunnar.

Á morgun verða liðin nákvæmlega fimmtíu ár frá andláti Jósefs Stalíns, sem þá hafði verið leiðtogi Sovétríkjanna frá árinu 1924.

Jósef Dzhugashvili fæddist árið 1889 í Georgíu, sem þá var hluti af rússneska keisaradæminu. Faðir hans var drykkfelldur og ofbeldisfullur maður og fékk Jósef oft að kenna á bræði hans. Móðir hans var hins vegar trúrækin þvottakona. Jósef lærði rússnesku í skóla sem rekinn var af rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, en talaði tungumálið alltaf með þykkum hreim. Meðan hann lagði stund á guðfræðinám í Tbilisi las hann á laun verk Karls Marx og annarra vinstrisinnaðra manna, en hann yfirgaf skólann áður en að útskrift kom.

Árið 1900 hóf Stalín afskipti sín af stjórnmálum með þátttöku í verkföllum og öðrum mótmælaaðgerðum. Hann gekk til liðs við hinn róttækari arm Marxíska sósíaldemókrataflokksins, Bolsévíka, þar sem hann nam hin kommúnísku fræði undir handleiðslu leiðtoga flokksbrotsins, Vladimírs Iljíts Leníns. Á tímabilinu frá 1902 til 1913 var Stalín sjö sinnum handtekinn og var dæmdur til fangelsisvistar og útlegðar.

Stóra tækifæri Stalíns fékkst árið 1912, þegar Lenín, sem þá var í útlegt í Sviss, skipaði hann í fyrstu miðstjórn Bolsévíkaflokksins, sem þá var orðinn sérstakur stjórnmálaflokkur. Árið 1917 sneri hann aftur til Rússlands úr útlegð í Síberíu og tók þátt í byltingu Leníns gegn hinni borgaralegu stjórn sem tekið hafði við af keisaraeinveldinu. Stalín hélt áfram klifri sínu upp metorðastiga kommúnistaflokksins þar til hann tók við embætti aðalritara flokksins, og notaði hann það vald sem embættið fól í sér til að taka völdin í flokknum, og Sovétríkjunum, að Lenín látnum.

Þegar Lenín gaf upp öndina árið 1924 lét Stalín hendur svo sannarlega standa fram úr ermum. Eftir að hafa komið andstæðingum sínum innan flokksins fyrir kattarnef jók Stalín til muna miðstýringu í Sovétríkjunum uns ríkið hafði fullkomna stjórn á efnahagi þjóðarinnar, ásamt öðrum sviðum sovésks mannlífs.

Við upphaf seinni heimstyrjaldarinnar gerði Stalín sáttmála við Adolf Hitler, sem í fólst m.a. að Póllandi var skipt á milli Þýskalands og Sovétríkjanna. Vonaðist Stalín til þess að með því að gera slíkan sáttmála við Hitler gæfist Sovétríkjunum tími og tækifæri til að byggja upp her sinn, en hann gerði sér grein fyrir yfirburðum þýska hersins á þeim tíma Stalín notaði tímann sem honum gafst til að innlima hluta Rúmeníu og Finnlands og eystrasaltsríkin þrjú Eistland, Lettland og Litháen inn í Sovétríkin.

Meðan á stríðinu stóð tók Stalín þátt í öllum helstu ráðstefnum Bandamanna, þ.á.m. í Tehran (1943) og Jöltu (1945). Hann náði að tryggja yfirráð Sovétríkjanna yfir ríkjum A-Evrópu og sá til þess að kommúnistar komust til valda í þessum ríkjum þrátt fyrir loforð um frjálsar kosningar að styrjöldinni lokinni.

Stalín var einræðisherra af verstu gerð. Hann stjórnaði með harðri hendi, lét taka andstæðinga sína, raunverulega og ímyndaða, af lífi, lét flytja hundruð þúsunda manna nauðungarflutningum innan sovétríkjanna, kramdi allt andóf og lét dæma fjölda manns til vistunar í fangabúðum í Síberíu. Í dag er hans minnst sem mannsins sem átti stóran þátt í sigri bandamanna á Þjóðverjum í seinni heimstyrjöld og sem eins versta fjöldamorðingja mannkynssögunnar, en hann bar ábyrgð á dauða milli átta og tíu milljóna sovéskra borgara.

Milljónir Úkraínubúa létu t.a.m. lífið snemma á fjórða áratug síðustu aldar eftir að ákveðið hafði verið að samyrkjubúskap skyldi komið á í landinu. Þeir bændur sem ekki vildu sæta því að missa allar sínar eigur voru annað hvort myrtir eða þeir sultu til bana. Taldi Stalín, eins og svo margir kommúnistaleiðtogar fyrr og síðar, réttlætanlegt að fórna milljónum mannslífa til að hið fullkomna sósíalíska þjóðfélag gæti litið dagsins ljós.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)