Um skoðanakannanir

Gallup birti um helgina niðurstöður þjóðarpúlsins, þar sem fylgi stjórnmálaflokkanna er mælt. Pistilshöfundur tók þátt í könnuninni, sem var um margt merkileg.

Þann fyrsta mars síðastliðinn voru birtar niðurstöður úr þjóðarpúlsi Gallups, og samkvæmt þeim er Samfylkingin með um 40% fylgi, Sjálfstæðisflokkur naut fylgist 36% þeirra sem tóku afstöðu, Framsóknarflokkurinn fékk 12% fylgi, Vinstrihreyfingin-grænt framboð fékk 8% og Frjálslyndi flokkurinn 2%.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi í síðustu viku að hringt var í mig frá Gallup og ég beðinn að taka þátt í þessari könnun. Þar sem við lifum á tímum þar sem við liggur að tekið sé meira mark á niðurstöðum skoðanakannana en kosninga rann mér blóðið til skyldunnar og sagði ég stúlkunni að ég vildi glaður taka þátt í stefnumótun Samfylkingarinnar fyrir marsmánuð.

Eftir að hafa sagt henni hvort ég hefði í vikunni tekið eftir auglýsingum frá Búnaðarbankanum (nei), VÍS (nei) eða Freschetta frosnum pizzum (já) og greint henni í smáatriðum frá fyrirhugaðri ferð minni til Bandaríkjanna næsta sumar (nei, ég ætla ekki að fljúga með Iceland express), kom að aðalatriðinu.

„Ef gengið væri til kosninga nú, hvaða stjórnmálaflokk myndir þú kjósa?”

Ég sagði henni að ég hyggðist kjósa Sjálfstæðisflokkinn, líkt og ég hefði gert fyrir fjórum árum og aðspurður sagðist ég einnig styðja ríkisstjórnina. Þar sem um var að ræða mín fyrstu kynni af þjóðarpúlsi Gallups taldi ég með þessu hafa framkvæmt skyldu mína, en í kjölfarið fylgdu eftirfarandi spurningar:

„Gætir þú, undir einhverjum kringumstæðum, hugsað þér að kjósa Samfylkinguna?” Nei. „Framsóknarflokkinn?” Nei. „Vinstri hreyfinguna – grænt framboð?” Nei.

Ekki veit ég hver tilgangurinn var með þessari röð spurninga. Það kæmi mér náttúrlega ekki á óvart þótt Samfylkingin reyndi að lauma inn spurningum sem gæfu til kynna hverju breyta ætti í stefnu flokksins til að lokka til sín fleiri kjósendur, en þar sem einnig var spurt um afstöðu mína til Framsóknar og VG tel ég ólíklegt að sú sé ástæðan fyrir spurningunni. Hins vegar hjó ég eftir því að ég var ekki spurður hverjar líkurnar væru á því að ég kysi einhvern tímann Frjálslynda flokkinn.

Ég geri mér grein fyrir því að þingflokkur Frjálslyndra er ekki fjölmennur, en þeir eru samt sem áður með tvo menn á þingi og hyggjast bjóða fram í öllum kjördæmum í vor. Af hverju er Frjálslyndi flokkurinn látinn sitja á hakanum í þjóðarpúlsinum? Það er líklega rétt að taka það fram að mér er innilega sama hvort Frjálslyndi flokkurinn fái 1,5% eða 2,5% atkvæða í komandi kosningum, en mér þykir hins vegar eðlilegt að þegar verið er að „mæla” afstöðu íslenskrar alþýðu til stjórnmálaflokka sitji allir flokkarnir við sama borð.

Líkt og annar Deiglupenni benti nýlega á, gildir það sama um þessa sögu og allar persónulegar reynslusögur; varasamt getur verið að draga ályktanir út frá þeim, enda aðeins er verið að ræða um einstök atvik en ekki velframsettar og vísindalega sannaðar tilraunir. Vel getur verið að stúlkan hafi einfaldlega gleymt að spyrja mig um skilyrta afstöðu mína til Frjálslynda flokksins. Hins vegar undirstrikar sagan nauðsyn þess að gefnar séu upp þær spurningar sem lagðar voru fyrir þáttakendur í skoðanakönnunum þegar niðurstöður þeirra eru birtar. Aðeins með því móti getur almenningur metið á hlutlægan hátt hvort eitthvað mark sé á niðurstöðunum takandi.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)