Ljúfviðrið og lopapeysan

Góða veðrið hefur gert íslenskum lopapeysuframleiðendum lífið leitt að undanförnu og hefur aðgerða af hálfu ríkisvaldsins verið krafist.

Undanfarnir dagar hafa verið óvenjuhlýjir og sólríkir, atvinnu- og athafnalíf landsins er í pásu og viðskipti í Kauphöll Íslands ekki nema brot af því sem hún er venjulega. Landinn kýs frekar að eyða sólardögunum úti en inni, helst buslandi í sundlaug eða við upphitaðar sólarstrendur í Nauthólsvík. Ekki eru þó allir sáttir. Þeir sem ekki eiga annars kost en að vinna innivinnu nöldra hver upp í annan, bölva hitanum en óska þess þó í hljóði að þeir gætu verið að súpa öl á Austurvelli í stað þess að stara stýrustjörfum augum á tölvuskjáinn. Svo eru þeir sem telja alla daga yfir frostmarki öruggt merki um áhrif gróðurhúsalofttegunda á vistkerfi jarðarinnar og kenna neyslufíkn vesturlandabúa um góða veðrið.

Það er svosem gott og blessað að Deiglupennar skuli gera góðviðrið að gamanefni, en það má þó ekki horfa framhjá því að til eru þjóðfélagshópar sem verða mjög illa úti þegar svona viðrar. Þeir Íslendingar sem hafa í sig og á með því að prjóna lopapeysur eru ekki sáttir við tíðafarið, enda eru útlenskir ferðamenn ekki áfjáðir í framleiðsluna í trópískum hitanum. Heldur kaupa þeir tævanskar stuttbuxur en hnausþykkar lopapeysur úr Svarfaðardalnum.

Hér er á ferðinni alvarleg aðför að íslensku athafnalífi, sem augljóslega krefst inngripa ríkisvaldsins. Ekki er undirrituðum ljóst hvort nokkur lopaprjóninn hefur krafist þess að lögleiddur verði sérstakur hámarkshiti hér á landi, enda býst maður, svona við fyrstu athugun, að slík löggjöf gæti orðið eftirlitsaðilum til trafala. Einhverjir hafa viðrað þá hugmynd að allir ferðamenn sem hingað koma verði skyldaðir til að festa kaup á ákveðnu magni af íslenskum lopa, hvort heldur sem er í lausu eða í fatnaðarformi. Af einhverri ástæðu hafa þær hugmyndir ekki náð fótfestu meðal íslenskra lopapeysuframleiðenda.

Þá hefur því verið fleygt að hugsanlega mætti styrkja lopapeysuframleiðslu hér á landi beinum fjárframlögum frá ríkinu. Þannig væri hver prjónuð peysa niðurgreidd um ákveðna krónutölu. Beinar niðurgreiðslur þykja hins vegar afar púkó og gamaldags og því hafa einhverjir lagt til að lopapeysuframleiðendur fái notið skattfríðinda, sem kæmu í sama stað niður og beingreiðslurnar, en eru miklu nútímalegri.

Stopp!

Það sem átti að vera góðlátlegt helgargrín þykir mér orðið ískyggilega líkt því sem stendur í stefnuskrám margra stjórnmálaflokka hér á landi. Mér finnst engin ástæða til að gefa þeim fleiri hugmyndir um hvernig sóa má fé skattborgarana.

Ég get hins vegar róað mig við að Alþingismenn nenna ekki að vinna í hitanum frekar en aðrir.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)