Slátrun í beinni

Er raunveruleikasjónvarp orðið of raunverulegt? Hversu langt má ganga í því að sýna venjulegt fólk gera venjulega hluti? Danir hafa velt þessu fyrir sér upp á síðkastið.

Það svalar einhverri fíkn hjá okkur flestum að gægjast inn til fólks og fylgjast með lífi þess um stund. Frá því að sjónvarpsútsendingar hófust hafa verið gerðir þættir um lífsstíl þeirra ríku og frægu en í raunveruleikasjónvarpi er leitað á ný mið. Hvað gerist þegar venjulegu fólki er komið fyrir á afviknum stað þar sem það þarf að leysa ýmiss konar þrautir? Hvernig högum við okkur þegar við vitum að sjónvarpsmyndavélarnar fylgja okkur hvert sem er?

Einn vinsælasti raunveruleikaþáttur fyrr og síðar er Survivor þar sem hópi fólks er komið fyrir í óbyggðum. Þau þurfa að útvega sér fæðu og húsaskjól án utanaðkomandi aðstoðar. Tvö lið keppa í þrautum og í lok hvers þáttar er einn liðsmaður þess liðs sem tapar kosinn í burtu. Að sjálfsögðu hefur þetta í för með sér ýmiss konar hópamyndanir því þeir sem eru vinsælastir eða duglegastir fá nánast alltaf að halda áfram.

Danir hafa tekið þátt í þessu æði með tveimur raunveruleikaþáttum. Annar var Big Brother sem vakti miklar deilur. Þar var fólk lokað inni í húsi og myndavélar fylgdust með öllu sem gert var, hvort sem það voru klósettferðir eða náin sambönd í svefnherbergjum. Margir gagnrýndu þáttinn á þeim forsendum að með honum væri gengið allt of langt. Eftirlitið var það mikið að þátttakendur fóru á taugum og umræðan um einstaka keppendur í fjölmiðlum, á vinnustöðum og kaffihúsum jaðraði við ofsóknir. Sumir voru elskaðir aðrir hataðir.

Hinn þátturinn er Robinsons sem er í anda Survivor. Fljótlega verður ný sería tekin til sýningar en einungis 18 af nokkrum þúsundum sem sóttu um fá að vera með. Annað kvöld verður sýndur síðasti undirbúningsþátturinn, eins konar undanúrslit þar sem 36 manns keppa í tveimur liðum. Eins og búast mátti við hafa fregnir af nokkrum atriðum valdið fjaðrafoki í þessu annars rólega landi. Á afskekktum stað á Jótlandi fara hóparnir tveir í gegnum þrautir sem minna helst á herþjálfun. Ekkert er gefið eftir. En það er ekki mannleg þjáning sem hefur farið mest fyrir brjóstið á stjórnmálamönnum úr öllum flokkum heldur eitthvað miklu verra.

Þegar í lokakeppnina er komið verða þátttakendur að geta útvegað sér fæðu. Nú hefur það komið fram í fjölmiðlum að í þættinum annað kvöld er sýnt þegar hænum er slátrað. Þetta er fyrir marga dropinn sem fyllti mælinn enda nokkuð ljóst að það að höggva hausinn af hænum með öxi er það versta sem hægt er að sýna í sjónvarpi. Eða hvað?

Það er frekar hjákátlegt að hugsa til þess að í nútímasamfélagi veki jafneðlilegur hlutur og slátrun slíka athygli. Dönsk blöð gerðu mikið úr þessu í gær, sérstaklega vegna þess að rúmlega 100.000 hænum er slátrað í Danmörku á hverjum degi án þess að nokkur segi orð. Dýraverndunarsamtök hafa þegar kært TV3 til lögreglunnar og stjórnmálamenn úr flestum flokkum hafa gagnrýnt þáttinn. Að vísu er hænunum ekki slátrað til einskis því þær eru eldaðar og borðaðar í þættinum.

Ég minnist þess að hafa horft á ágætan þátt fyrir nokkrum árum um Vestmannaeyjar þar sem lundaveiðimanni var fylgt eftir. Það held ég að Danskir hefðu fallið í yfirlið hefðu þeir séð saklausan fuglinn vera snúinn úr hálslið og svo étinn. Svona gera menn ekki. Forsvarsmenn TV3 eru hins vegar hæst ánægðir með alla umfjöllunina sem þessi slátrun í beinni hefur fengið enda verður áhorf á þáttinn annað kvöld líklega með því mesta sem gerist.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)