Um rétt til lífs

Flestir byggja skoðanir sínar á málum sem hafa með líf og dauða að gera á þeirri hugmynd að allir menn hafi rétt til lífs. Hér er fjallað eilítið um hin mismunandi form sem þessi hugmynd tekur og hvernig þessi mismunandi form eru notuð til þess að réttlæta mismunandi skoðanir á málum eins og fóstureyðingum, líknardrápi og dauðarefsingu.

Hugmyndin um að allir menn hafi rétt til lífs er oft á tíðum fyrirferðarmikil í umræðum um mál eins og fóstureyðingar, líknardráp og dauðarefsingar. Lang flestir virðast aðhyllast þessa skoðun í einni eða annarri mynd og nota hana óspart til þess að réttlæta afstöðu sína til hinna ýmsu mála. Það er því athyglisvert hversu mismunandi form þessi hugmynd tekur hjá mismunandi fólki.

Flestir eru á því að dráp á börnum, jafnvel nýfæddum börnum, sé siðferðilega rangt því börn hafi rétt til lífs. En hvernær öðlast börn þennan rétt? Sumir myndu segja að þau öðlist þennan rétt við fæðingu. Ef svo er þá er ef til vill í lagi að framkvæma fóstureyðingar alveg fram að fæðingu.

Nei, að betur athuguðu máli eru flestir á því að fóstur á síðari stigum meðgöngu hafi einnig rétt til lífs. Einhverra hluta vegna er þessi réttur þó skilyrtur að flestra mati. Hann á ekki við ef heilsu móðurinnar stafar hætta af meðgöngunni.

Andstæðingar fóstureyðinga ganga enn lengra. Þeir telja að allt líf af gerðinni homo sapiens hafi rétt til lífs. Að þeirra mati öðlast manneskjur því rétt til lífs við myndun okfrumu. (Nema ef um nauðgun eða sifjaspell ef að ræða, að sumra mati?!?)

Sumir færa fram þau rök að þótt okfruman sé ekki enn orðin að manneskju þá muni það gerast ef náttúran fær að hafa sinn gang og því hafi okfruman rétt til lífs. En ættum við þá ekki að vera á móti getnaðarvörnum. Ef náttúran fengi að hafa sinn gang í því tilfelli yrði einnig til manneskja.

Réttur fullorðinna til lífs er oft á tíðum einnig háður skilyrðum að margra mati. Dráp í sjálfsvörn eru að margra mati í lagi. Margir telja að morðingjar hafi með glæpum sínum fyrirgert rétti sínum til lífs. Einnig eru margir sem telja að dráp á fullorðnum manneskjum í stríði sé ekki jafn alvarlegur glæpur og á öðrum tímum.

Flestir eru þó sammála um að draga skörp skil milli dráps á fólki á dráps á öðrum lífverum. Það þykir ekkert tiltökumál að mörgum milljónum kúa sé slátrað þegar gin og klaufaveiki kemur upp. Þó er oft talið alvarlegra að drepa krúttleg dýr, s.s. seli og höfrunga, en ljót dýr eins og birni og úlfa.

Þessi skörpu skil hafa þó ekki alltaf verið til staðar. Ekki er langt síðan fólki af einum kynstofni þótti ekkert tiltökumál að drepa fólk af öðrum kynstofni.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst allar þessar viðmiðanir sem byggja á útliti og/eða tegund hálf handahófskenndar og óúthugsaðar frá siðferðilegu sjónarmiði. Það kæmi mér ekki á óvart að „tegundahyggja” okkar eigi eftir að hljóma alveg jafn fáránlega í eyru fólks eftir 150 ár og kynþáttahyggja forfeðra okkar hljómar í dag.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér siðferði lífs og dauða sem ekki byggir á tegundahyggju vil ég benda á bækur eftir heimspekinginn Peter Singer, s.s. Rethinking Life and Death, Practical Ethics og Animal Liberation.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.