Andstæðingar Nova Atlantis

Eru listamenn andvígir hinu nýja samfélagi, Nova Atlantis, með andúð sinni á Kárahnjúkavirkjun? Ásgeir Jóhannesson telur svo vera í gestapistli á Deiglunni og að Ísland þurfi fleiri upplýsta andans menn á borði við Einar Benediktsson og Börk Gunnarsson, ekki fleiri andstæðinga Nova Atlantis, þar sem nóg sé af þeim.

Virkjanir hafa verið talsvert í umræðunni á síðustu misserum. Börkur Gunnarsson, rithöfundur og leikstjóri, skrifaði athyglisverða grein í DV föstudaginn 21. febrúar sem bar yfirskriftina Stríð eða ekki stríð. Þar líkir hann íslensku þjóðinni við fjórtán ára krakka. Í henni segir hann meðal annars að að þau öfgakenndu mótmæli sem hafa verið við Kárahnjúkavirkjun séu enn eitt dæmið um skort íslenskrar sögu á raunverulegum tragedíum þar sem fólk fær tækifæri til að láta lífið fyrir góðan málstað. Það sé skiljanlegt hjá fjórtán ára krakka í stórri fjölskyldu að hann öfundi eldri systkini sín af því að hafa reynt eitthvað, að hafa farið út í lífið og upplifað raunverulegar tragedíur og hægt og bítandi fari krakkinn að ýkja upp smáatvik í eigin lífi og gera tragedíur úr þeim. Þótt krakkinn sé bara ofverndaður og það hafi í raun ekkert gerst í lífi hans. Líkingin er frumleg og greinin hressandi innlegg í virkjanaþrasið endalausa.

Francis Bacon (1561-1626) skrifaði mikið um hvoru tveggja hin nýju vísindi sem áttu að veita mönnum vald yfir náttúrunni og hið nýja samfélag (Nova Atlantis) sem átti að verða paradís á jörð fyrir tilstilli hinna nýju vísinda. Hann átti sér draum um að maðurinn næði tæknilegu valdi yfir náttúrinni og að hin tæknilega skynsemi leiddi manninn inn í nýtt samfélag. Vísindin væru verkfæri til að ná valdi á náttúrinni og bæta samfélagið. Francis Bacon var forsjáll. Á okkar dögum er ljóst að hann hafði að miklu leyti á réttu að standa. Fyrir tilstilli nútímavísinda þar sem beitt er aðferð tilgátu og afleiðslu hafa lífskjör manna verið bætt stórum. Francis Bacon hafði mikil áform um baráttu gegn fáfræði og fordómum og viðhorf hans eru fyrirboði upplýsingarinnar á 18. öld.

En hvað var upplýsingin? Látum Magnús Stephensen, landshöfðingja, hafa orðið:

„Hvert er meðalið … sem eyddi hjátrú, blótum, göldrum, morði og svo mörgum stórlöstum og villusiðum, sem varla nefnast nú vor á meðal? Hver leysti fjötur vorrar atvinnu, vorrar verslunar, vorra þanka? Hver sýndi og hver kenndi oss nokkrum siðsemd og kurteisi, ýmsar góðar menntir, íþróttir, bjargar- og læknismeðul og atburðina til að gjöra lífið eftir skaparans gæskuríka tilgangi sem mæðuminnst, en ánægjusamast? Ég segi upplýsingin.“

Aldamótamennirnir Hannes Hafstein, Jón Þorláksson og Einar Benediktsson svo einhverjir séu nefndir voru undir miklum áhrifum af þeim vísinda- og framfaraanda sem upplýsingin bjó til. Sá síðastnefndi orti eftirfarandi í ljóðinu Íslandsljóði:

Þú fólk með eymd í arf!

Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,

lítil þjóð, sem geldur stórra synda,

reistu í verki

viljans merki –

vilji er allt, sem þarf.

Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi.

Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.

Bókadraumnum,

böguglaumnum

breyt í vöku og starf.

Í ljóðinu Aldamótum orti Einar:

Vor hólmi er snauður, svo hart er um brauð,

margt hérað sem eyðimörk köld og dauð.

Sú öld, sem nú hefst, á hlutverk að inna –

sjá hljálpráð til alls, varna þjóðinni falls.

En sýnir ei oss allur siðaður heimur,

hvað sárlegast þarf þessi stjálbyggði geimur,

að hér er ei stoð að stafkarlsins auð?

Nei, stórfé! Hér dugar ei minna!

Oss vantar hér lykil hins gullna gjalds

að græða upp landið frá hafi til fjalls.

Hann opnar oss hliðin til heiðanna, á miðin,

í honum býr kjarni þess jarðneska valds.

Þann lykil skal Ísland á öldinni finna –

fá afl þeirra hluta, er skal vinna.

Þessi ljóð voru ort þegar Ísland var eitt fátækasta land í heimi. Nú um einni öld síðar er Ísland hins vegar eitt ríkasta land í heimi. Þrátt fyrir það hafa ljóðin ekki misst gildi sitt því að Íslendingar hljóta eins og aðrar þjóðir ávallt að hafa heilbrigðan metnað til framfara. Það verður spennandi að sjá hvort hin nýja aldamótakynslóð, sú kynslóð sem nú er komin til vits og ára og farin að spreyta sig í lífinu, stenst samanburðinn við síðustu aldamótakynslóð. Verður hún jafn víðsýn og djörf? Tíminn leiðir það í ljós.

Íslenskt listafólk hefur verið í fararbroddi þeirra sem mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Stundum er eins og það hafi ræktað upp með sér óhóflega, uppstrílaða tilfinningasemi gagnvart náttúrinni. Skáldin eru orðin að veruleikafirrtum aumingjum, sem eru á móti að því er virðist nánast öllum framkvæmdum. Tuðandi væluleg kvæði á Austurvelli til að viðhalda sinni óhóflegu, uppstríluðu tilfinningasemi gagnvart náttúrunni og boða öðrum hana. Í stað þess að gegna því hlutverki að stuðla að framförum, berjast þau fyrir stöðnun. Í stað þess að stuðla að því að leysa landann úr hlekkjum hugarfarsins, berjast þau fyrir hlekkjun hugarfarsins. Af hverju hefur enginn listamaðurinn fjallað um hve dásamlegt það er að fá erlent fjármagn inn í landið í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði? Hvar eru framfarasinnuðu athafnamennirnir meðal rithöfunda og skálda?

Alhæfing mín um heilu stéttina er ekki stóridómur minn um hana, heldur frekar ætluð lesendum til umhugsunar. Oft þarf stór orð til þess. Sjálfsagt hafa andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar, hvoru tveggja þeir sem berjast gegn henni á efnahaglegum forsendum og náttúruverndarsinnar, eitthvað til síns máls. En kjarni þessa pistils er sá að Ísland þarf fleiri upplýsta andans menn á borði við Einar Ben og Börk, hins vegar ekki fleiri andstæðinga Nova Atlantis, nóg er af þeim.

Ásgeir Jóhannesson

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Gestapistill (see all)