Týndar minningar

Flestir kannast við gremjuna þegar mikilvægt skjal eða tölvupóstur hverfur úr tölvunni á óskiljanlegan hátt. Með notkun tölvunnar á sífellt fleiri sviðum er líklegt að ýmsir muni þurfa að gráta meira en nokkrar tapaðar vinnustundir í framtíðinni.

Nú á dögum virðist sem stafræn myndavél, og jafnvel myndbandsupptökuvél, sé orðin skyldueign fyrir alla nýja og verðandi foreldra. Stoltir fylgja þeir afkvæminu eftir og skrásetja af skyldurækni þess fyrsta bros, þess fyrstu skref, þess fyrsta orð. Þetta er svo allt saman flokkað og varðveitt, af mikilli kostgæfni.

Slík tæki eru nú notuð í æ ríkari mæli til að varðveita dýrmætustu stundir í lífi fólks. En það er því miður svo að gögn sem geymd eru á tölvu eru síður en svo í varanlegri og öruggri geymslu, eins og flestir þekkja. Tölvuveirur, hugbúnaðargallar og jafnvel bilanir í vélbúnaði geta eyðilagt öll gögn sem á tölvunni eru. Það er því slæmt að afritunarbúnaður virðist enn sem komið er ekki vera jafnómissandi þáttur og myndatökuvélarnar sjálfar.

Geisladiskabrennarar eru sem betur fer að verða útbreiddir og geta veitt nokkuð öryggi ef þeir eru notaðir rétt. Í mörgum tilfellum eru þeir þó ekki notaðir sem öryggisafrit, heldur til að búa til pláss á tölvunni sjálfri. Myndirnar eru þá brenndar á geisladiska og svo er þeim eytt af tölvunni.

Geisladiskar eru því miður enn viðkvæmari en tölvan sjálf og það þarf ekki mikið hnjask til að eyðileggja gögn á þeim. Þeir eru líka mun viðkvæmari en venjulegir tónlistargeisladiskar og fólk getur því eyðilagt diskana án þess að gera sér grein fyrir því að það sé að fara illa með þá.

Því miður er það svo að jafnvel þótt fyllstu varúðar sé gætt í meðförum diskanna eru gögnin ekki örugg, því þau geta eyðilagst á nokkrum árum þótt diskarnir séu ekki hreyfðir. Það er því nauðsynlegt að eiga nokkur afrit, ef á að tryggja öryggi gagnanna.

Vandinn við að varðveita minningarnar á stafrænu formi er sá að þær taka það mikið pláss, og margir eru í stökustu vandræðum. Hugsanlega eiga DVD brennarar eftir að auðvelda utanumhaldið fyrir suma, enda geta þeir geymt mun meira af gögnum.

Líklegt er þó að þegar þónokkur hluti fólks hefur tapað ljósmyndum eða myndbandsupptökum af börnum eða giftingum, muni menn leita annarra leiða til að varðveita slík verðmæti. Nú þegar bjóða sum fyrirtæki upp á að vista myndaalbúm á netinu og sú atvinnugrein mun að öllum líkindum vaxa stórkostlega á komandi árum. Ekki til að gefa ættingjum tækifæri til að skoða myndirnar á vefnum, heldur vegna þess að slík fyrirtæki geta boðið upp á fullkomna öryggisafritun gagnanna og þannig tryggt varanlega varðveislu þeirra.

Líklegt er að slíkar þjónustur verði orðnar verulega útbreiddar innan margra ára, og að þær verði mikilvægur drifkraftur á bak við áframhaldandi aukningu bandvíddar á netinu. En þangað til er nauðsynlegt að gæta vel að sínum myndum. Og þá er ekki fleira í pistlinum í dag. Verið þið sæl!

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)