Líf í skugga hryðjuverka

Efnahagslíf heimsins hefur borið töluverðan skaða í keðjuverkunaráhrifum sem stuðlað hafa að samdrætti í heiminum, NATO samstarfið er komið í uppnám í kjölfar deilna um baráttuna gegn hryðjuverkum, hægst hefur á alþjóðavæðingu og fólkskflutningum á milli landa, kynþáttafordómar hafa klárlega aukist og stöðugur ótti hvílir orðið á stórum hluta hins vestræna heims.

Því miður er hægt að segja að hryðjuverkamönnum hafi tekist ætlunarverk sitt með árásunum 11. september. Er við horfum til baka sjáum við að afleiðingar árásanna eru nú farnar að hafa bein og óbein áhrif á okkar daglega líf. Efnahagslíf heimsins hefur borið töluverðan skaða í keðjuverkunaráhrifum sem stuðlað hafa að samdrætti í heiminum, NATO samstarfið er komið í uppnám í kjölfar deilna um baráttuna gegn hryðjuverkum, hægst hefur á alþjóðavæðingu og fólkskflutningum á milli landa, kynþáttafordómar hafa klárlega aukist og stöðugur ótti hvílir orðið á stórum hluta hins vestræna heims.

Bin Laden og fylgismenn glotta því eflaust við tönn í fávisku sinni í hellinum þar sem þeir eru í felum, bleyðurnar. Þeir hafa komið sér á blað í mannkynssögunni með því að bjóða hinum vestræna heimi birginn og þeim kafla virðist því miður ekki lokið. Það skelfilegasta af öllu er að þeir hafa fundið vopn sem smýgur í gegnum allar okkar hátæknivarnir og stríðstól, nefnilega óttan.

Síðastliðið þriðjudagskvöld var pistlahöfundur staddur í Bretlandi, nánar tiltekið á hóteli á Heatrow flugvelli, er 450 breskir hermenn í fullum herklæðum komu skyndilega akandi á vettvang á skriðdrekum. Fyrir saklausan Frónbúa frá Norðurheimsskautinu er það frekar óvanaleg og jafnframt óþægileg tilfinning að hafa alvopnaða hermenn allt í kringum sig, janfvel þó það sé gert í þágu hans öryggis. Eftir að Frónbúinn varð þess óhjákvæmilega var að eitthvað óvenjulegt væri að gerast fór hann að fylgjast með fréttum til þess að vera einhvers vísari. Þar kom svo í ljós að leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna höfðu orðið þess áskynja að hryðjuverk væru yfirvofandi á Heathrow flugvelli. Það fylgdi líka fréttiunum að Tony Blair hefði sjálfur sent herinn á vettvang eftir að hafa vandlega velt því fyrir sér að loka Heathrow flugvelli, svo alvarleg var hótunin. Án þess að vera óttasleginn þóttu pistlahöfundi þessi tíðindi ekki sérlega uppörvandi nokkrum klukkustundum fyrir áætlaða brottför til Danmerkur, með British Airways.

Um miðja nótt fór svo undirritaður, viljandi nokkuð tímalega, af stað frá hótelinu yfir í flugstöðina og bókaði sig inn í flugið til Kaupmannahafnar. Eins og pistlahöfundi grunaði voru langar biðraðir við vopnaleit og öryggisviðbúnaður flugstöðvarinnar greinilega á hæsta stigi. Eftir nokkra stund komst undirritaður þó fyrir rest inn í þéttsetna flugvélina, ásamt öðrum syfjuðum ferðalöngum sem flestir voru danskir. Fljótlega eftir að farþegar höfðu komið sér fyrir í sætunum kom í ljós að um hálftíma seinkun yrði á brottfarartíma. Þá hófu bresku flugfreyjurnar, af mikilli alúð, að dreifa lesefni til farþeganna, sennilega til að stytta þeim stundir og drefa huga þeirra frá yfirvofandi hryðjuverkaógn sem lesa mátti úr hverju andliti. Pistlahöfundi var rétt hið ágæta blað, Daily Mail, og ákvað að reyna að hrista af sér syfjuna og bæla magaólgurnar, sem sennilega orsökuðust af smá óöryggi og þunnu flugstöðvarkaffi, með því að sökkva sér ofan í breska menningu. Nema hvað, flennistór forsíðumynd miðvikudagsblaðsins, af grímuklæddum Araba með SAM-7 flugskeytabyssu á öxlinni, var svo skemmtilega lýst með fyrirsögninni: “Some Plane from Heathrow Will be Shot Down.”

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)