Víðar pottur brotinn

Það fylgir því mikil ábyrgð að fara með almannafé. Það er tímabært að forráðamenn stofnana ríkisins fái mun meira aðhald en verið hefur. Brottvikning Þorfinns Ómarssonar hefði í raun ekki átt að valda fjaðrafoki – heldur ætti slíkt að vera viðtekin venja þegar bókhaldsóreiða er ríkjandi hjá opinberum stofnunum.

Það var hárrétt ákvörðun hjá menntamálaráðherra að víkja forstöðumanni Kvikmyndasjóðs tímabundið frá störfum vegna óreiðu sem var á bókhaldi sjóðsins. Þeim sem sýsla með opinbert er falin mikil ábyrgð og undir henni verða þeir að standa. Til að auðvelda slíkum aðilum starf sitt og til að tryggja vandaða meðferð opinbers fjár, gilda skýrar og ákveðnar formreglur. Rétt eins og aðrar reglur stjórnsýslunnar þá er reglum um meðferð opinbers fjár ætlað að vernda hlutlæga stöðu sýslunarmannanna sjálfra. Ríkisendurskoðun hefur tekið skýrt fram að ekkert liggi fyrir um misnotkun á opinberu fé af hálfu forstöðumannsins, heldur eru gerðar athugasemdir við að formreglum sé ekki fylgt.

Á síðustu misserum hafa komið upp önnur og alvarlegri mál sem varða mistnotkun embættismanna eða kjörinna fulltrúa á opinberu fé. Í sumum tilfellum hefur sú misnotkun verið næsta grímulaus en í öðrum tilfellum óljósari, og í einhverjum tilvikum á hinu gráa svæði þess sem er löglegt en siðlaust. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir við meðferð stofnana og embætta innan íslenska stjórnkerfisins vegna meðferðar á opinberu fé. Lýtur sú gagnrýni bæði að framúrkeyrslu á fjárheimildum og vanköntum á því að áðurnefndum formreglum sé fylgt.

Eitt er það embætti innan íslenska stjórnkerfisins sem fengið hefur á sig ákúrur fyrir hvort tveggja, en það er embætti Forseta Íslands. Við endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1999 gerði Ríkisendurskoðun athugasemdir við bókhald forsetaembættisins, einkum hvað varðaði uppgjör og frágang ýmissa ferðareikninga. Var reikningum vegna ferða ekki skilað innan eðlilegra tímamarka og ferðakostnaður fluttur á milli uppgjörstímabila. Þetta heitir á slæmri íslensku að „fiffa“ bókhaldið, svo það líti betur út. En það vakti einnig athygli að skyldmenni forsetans, sem hafa ekki verið kosin til trúnaðarstarfa og hafa ekkert umboð frá almenningi til að ráðstafa opinberu fé, lögðu fram reikninga fyrir kostnaði vegna hins og þessa.

Þessar misfellur í meðferð fjármuna forsetaembættisins verða sínu alvarlegri í því ljósi, að embættið hefur frá því að núverandi persóna tók við því, ítrekað farið fram úr heimildum þeim sem því eru gefnar með lögum. Með öðrum orðum, þá hefur forsetaembætti Ólafs Ragnars Grímssonar ítrekað eytt fjármunum skattgreiðenda í algjöru heimildarleysi. Við áðurnefnda endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1999 fór embættið t.a.m. tæplega 20% fram úr heimildum sínum og sýnir það auðvitað ekkert annað en fullkomið virðingarleysi fyrir skattgreiðendum þessa lands.

Það er afar mikilvægt að virkt eftirlit sé með meðferð opinbers fjár og að þeir, sem ekki standast þær kröfur sem gerðar eru, séu settir til hliðar. Það er umhugsunarvert, að forsetaembættið skuli sýna það fordæmi sem raun ber vitni í þessum málum.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)