2.655.000.000.000 kr.

Í gær lauk uppboði sem breska ríkisstjórnin efndi til vegna úthlutunar á leyfum fyrir farsímaþjónustu í landinu. Fimm leyfi stóðu til boða en rásirnar, sem þjónustan byggir á, eru ágætt dæmi um takmarkaða auðlind. Óhætt er að segja að uppboðið hafi tekist bærilega, alla vega frá sjónarhóli seljandans séð, því rásirnar fimm voru slegnar á samtals 22,5 milljarða punda, eða 2.655.000.000.000 kr. (tvöþúsundogsexhundruð milljarða króna!).

Í gær lauk uppboði sem breska ríkisstjórnin efndi til vegna úthlutunar á leyfum fyrir farsímaþjónustu í landinu. Fimm leyfi stóðu til boða en rásirnar, sem þjónustan byggir á, eru ágætt dæmi um takmarkaða auðlind. Óhætt er að segja að uppboðið hafi tekist bærilega, alla vega frá sjónarhóli seljandans séð, því rásirnar fimm voru slegnar á samtals 22,5 milljarða punda, eða 2.655.000.000.000 kr. (tvöþúsundogsexhundruð milljarða króna!).

Það jafngildir um 45.000 krónum á hvert mannsbarn á Bretlandi og hefur Gordon Brown, fjármálaráðherra, boðað stórfellda niðurgreiðslu skulda ríkisins, m.ö.o. þá á ekki að verja fénu í aukin ríkisútgjöld. Það leiðir hugann heim og sést þá hve ólíkt mennirnir hafast að. Fyrir dyrum stendur að selja Landssímann, og jafnvel fleiri fyrirtæki í eigu ríkisins, og gæti söluandvirðið hlaupið á tugum milljarða. En í stað þess að borga niður skuldir í stórum stíl eða lækka skatta verulega, á að grafa jarðgöng þvers og kruss um landið endilangt fyrir peningana. Ekki víst að þá sé tilganginum með sölunni náð og spurning hvort ekki sé betur heima setið en af stað farið.

Nokkuð hefur verið rætt um uppboðsleiðina í tengslum við úthlutun aflaheimilda hér á landi. Aflaheimildarnar eru vissulega takmörkuð auðlind, líkt og bresku farsímaleyfin. Dóm Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu er vart hægt að skilja á annan veg, en að löggjafinn geti ákveðið hvenær sem er að bjóða upp aflaheimildir, þrátt fyrir núverandi fyrirkomulag. Spurningar hafa vaknað um hvort núverandi heimildahafar ættu ekki rétt á skaðabótum vegna missis atvinnuréttinda. Íslensk dómaframkvæmd er hins vegar með þeim hætti, að dómstólar hafa eftirlátið löggjafanum töluvert svigrúm við mat á því hvort hægt sé að svipta menn stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum með almennri lagasetningu.

Þó er líklegt að slíkt yrði að gerast á löngum tíma, annars yrði að greiða viðkomandi bætur. Fyrir nokkrum árum viðraði Pétur Blöndal, alþingismaður, þá hugmynd að bjóða kvótann upp á tuttugu árum, 5% á ári, og að þeim tíma liðnum yrði allur kvótinn boðinn upp á hverju ári. Þessi leið er vissulega fær. Ókostir uppboðsleiðarinnar fyrir íslenskan sjávarútveg eru hins vegar fjölmargir, þ.á m. óöryggi í framtíðaráætlunum og líklegt er að dreifðari byggðir landsins ættu á brattan að sækja í slíkum uppboðum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.