Frumsýning Samfylkingarinnar

Vinstri menn á Íslandi, eða hluti þeirra að minnsta kosti, frumsýndu um helgina nýjustu afurð sína á mikilli sýningu í Borgarleikhúsinu.

Vinstri menn á Íslandi, eða hluti þeirra að minnsta kosti, frumsýndu um helgina nýjustu afurð sína á mikilli sýningu í Borgarleikhúsinu. Hér er um að ræða nýja og endurbætta útgáfu Samfylkingarinnar, sem hlaut heldur dræmar viðtökur er henni var hleypt af stokkunum fyrir nokkrum misserum. Eftir að hafa sniðið af henni mestu vankantana, bætt og lagað eftir þörfum, er það von aðstandenda hennar að nýja útgáfan muni öðlast þá fjöldahylli sem að var stefnt frá upphafi. Í heild má segja að sýningin hafi tekist vel og gaf hún vígsluathöfn Vladimírs Pútín í Rússlandi ekkert eftir hvað varðar mikilfengleik.

Nýja Samfylkingin er frjálslyndur jafnaðarflokkur, en að sögn fróðra manna á það vera örugg ávísun á fjöldafylgi. Nýja Samfylkingin er meira að segja svo frjálslynd, að orðið FRELSI, í einni eða annarri orðmynd, kemur alls 29 sinnum fyrir í stefnuyfirlýsingu nýja flokksins. Þótt flokkurinn kenni sig þó við jöfnuð og verði hugsanlega látinn heita Jafnaðarflokkurinn, þá kemur orðið JÖFNUÐUR einungis 14 sinnum fyrir, í einni eða annarri mynd.

Það hlýtur þó að teljast umhugsunvert fyrir flokk sem „krefst forystu fyrir ríkisvaldinu,“ eins og segir í lok stjórnmálayfirlýsingar fundarins, að hann geti ekki einu sinni ákveðið sitt eigið nafn. Núna heitir hann bara Samfylkingin II eða Samfylkingin, önnur útgáfa. Samkvæmt heimildum Deiglunnar lagðist hópur kvennalistakvenna gegn því að flokkurinn héti Jafnaðarmannaflokkurinn, þær vildu ekkert „manna“ í sínum flokki. Mörgum þykir Jafnaðarflokkurinn hálf kindarlegt, eiginlega færeyskt. Þetta eru sumsé helstu viðfangsefni flokksins sem ætlar að breyta íslenskum stjórnmálum til framtíðar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.