Ríkir Íslendingar

Sigurður Már Jónsson hefur gefið út mjög áhugaverða bók – Ríkir Íslendingar. Þar er m.a. fjallað um „nýríka“ Íslendinga og fjölmarga sem létu „íslenska drauminn“ rætast.

Út er komin bókin Ríkir Íslendingar eftir blaðamanninn Sigurð Má Jónsson. Í bókinni er fjallað um ríkustu Íslendingana og lesendum gefst kostur á því að kynnast því lítillega hvernig þessum aðilum tókst að efnast. Bækur sem þessi eru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi munu margir forvitnir um hagi náunga síns en fæstir munu telja að slíkar hvatir séu sérlega göfugar þótt þær séu í flestum tilfellum saklausar.

Annað og mun mikilvægara hlutverk slíkrar bókar er að með lestri hennar gera lesendur sér ljóst að nú um stundir geta duglegir og snjallir Íslendingar látið drauma sínar rætast. Þeir geta stofnað fyrirtæki, veitt fólki atvinnu, stundað nýsköpun og efnast bærilega í ofanálag. Í viðtali á Rás 2 fyrir skemmstu var höfundur bókarinnar í viðtali. Þar sagði hann að engin töfraformúla væri fyrir því að verða ríkur á Íslandi en lét þess getið að í fæstum tilfellum væri um skyndigróða að ræða. Eins einfeldningslegt og það kann að virðast þá eru það einmitt ráðdeild, elja, þrautsegja, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi sem, að mati höfundar, skila fólki árangri. Sigurður tók það t.a.m. fram í viðtalinu að hann teldi að fæstir þeirra, sem skyndilega eignuðust mikinn auð með hlutabréfaverslun fyrir tveimur árum eða svo, væru enn í hópi ríkari manna landsins. Auðsótt ríkidæmi færir fólki sjaldnast hamingju og er hverfult.

Það eru mýmörg dæmi um að fólki á öllum aldri hafi tekist á að byggja upp snjöll fyrirtæki sem síðar hafi skilað þeim öruggri lífsafkomu. Eins eru auðvitað mörg dæmi um að fólk hafi tekið áhættu en ekkert uppskorið nema gjaldþrot. Engin dæmi eru hins vegar til fyrir því að fólk hafi komist í álnir með því að sitja með hendur í skauti sér eða lifa á allan hátt heðfbundnu lífi. Hið mikilvæga er að á Íslandi sé til staðar hvetjandi umhverfi svo einstaklingum vaxi það ekki um of í augum að taka áhættu og láta reyna á hugmyndir sínar.

Það er sem betur fer ekki rétt að auðsöfnun einstakra manna feli í sér að eitthvað sé frá öðrum tekið. Öðru nær. Þeir sem hafa náð persónulegum árangri hafa venjulegast gert það vegna þess að þeir hafi greitt úr vandamálum náungans á hagkvæmari eða snjallari hátt en áður hefur verið eða veðjað á fyrirtæki sem hafa gert það. Þannig efnast menn á viðskiptum við fólk, sem af fúsum og frjálsum vilja, kaupir þá vöru eða þjónustu sem hinir svokölluðu auðmenn hafa upp á bjóða.

Það er mikið gleðiefni að hér á Íslandi fari þeim fjölgandi sem eiga verulegar persónulegar eignir. Slík þróun hefur í för með sér að atvinnulíf verður fjölbreyttara og valdið dreifist. Þannig verða ekki lengur til hér miklir höfðingjar sem öllu ráða heldur fjölmargir einstaklingar sem keppa saman að því að bjóða upp á sem sniðugastar lausnir og reyna að koma vörum sínum og þjónustu á stærri markaði erlendis. Því fer víðs fjarri að umfjöllun um fólk, sem tekist hefur að öðlast ríkidæmi, feli í sér einvhers konar dýrkun á peningum. Í raun eru það nefnilega ekki peningaeignin sjálf sem er aðdáunaverð heldur bjartsýni, hugrekki og dugnaður þeirra, sem tekist hefur að berjast mót straumnum og náð árangri.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.