Íslenskt trúboð til útflutnings

Fátt vekur meiri aðdáun mína í fjölmiðlaflórunni um þessar myndir en sjónvarpstöðin Ómega sem sjónvarpar kristilegu efni daginn út og inn. Ef marka má upplýsingar sem fram koma á heimasíðu Ómega voru þann 8. nóvember sl. tíu ár liðin frá því að Guð talaði til Eiríks Sigurbjörnssonar, sjónvarpsstjóra, um að setja á laggirnar kristilega sjónvarpsstöð á Íslandi.

Fátt vekur meiri aðdáun mína í fjölmiðlaflórunni um þessar myndir en sjónvarpstöðin Ómega sem sjónvarpar kristilegu efni daginn út og inn. Ef marka má upplýsingar sem fram koma á heimasíðu Ómega voru þann 8. nóvember sl. tíu ár liðin frá því að Guð talaði til Eiríks Sigurbjörnssonar, sjónvarpsstjóra, um að setja á laggirnar kristilega sjónvarpsstöð á Íslandi. Sumarið 1992 varð draumurinn að veruleika og síðan þá hefur Ómega unnið sér veglegan sess í sögu íslenskrar fjölmiðlunar og ekki síðri sess í sögu kristniboðs hér á landi.

Og á Ómega eru menn ekki aðeins himneskir í orði, heldur finnur athafnaþrá og trúðboðsákafi þeirra Ómegamanna sér einna helst viðnám meðal himintunglanna. Nú stendur fyrir dyrum að kristna landslýð í 77 löndum og það er verkefni sem Eiríkur Sigurbjörnsson, og félagar hans víla ekki fyrir sér. Þeir hyggjast koma upp jarðstöð og senda þaðan efni í gegnum gervihnetti til 77 landa – íslenskt kristniboð er þannig orðið að útflutningsvöru. Hvort það stenst samanburð við alþjóðlegt kristniboð karla á borð við hinn nafntogaða krafaverkaklerk Benny Hinn á síðan eftir að koma ljós, en í öllu falli verður að taka viljann fyrir verkið.

Og kostnaðurinn við þessa útrás hins íslenska kristniboðs mældur á jarðneskan mælikvarða er ekki ýkja hár, í mesta lagi nokkrir tugir milljóna. Og hvernig ætla Eiríkur og félagar að fjármagna fagnaðarerindið? Jú, með því að leita til 77 frumkvöðla, sem þeir nefna svo. Þessir frumkvöðlar skuldbinda sig til að greiða fjögurhundruð krónur á dag, aðeins, eða tólf þúsund krónur á mánuði, sem gerir 144 þúsund krónur á ári, í þrjú ár (að mér skilst) til þess að koma íslensku kristniboði inn á heimili almennings í Evrópu og Asíulöndum nær. Og þeim er að sjálfsögðu lofað himnavist að launum, og nafni sínu greyptu í stein í jarðstöðinni væntanlegu, svona í kaupbæti.

En hvað sem mönnum kann annars að finnast um skynsemi þess að flytja út íslenskt kristniboð og kosta til þess tugum milljóna króna, þá verður að líta til þess að þetta áhugamál trúboðanna er kostað af fólki sem af fúsum og frjálsum vilja lætur fé af hendi rakna. Hér á landi tíðkast ýmis konar kostnaðarsöm trúboð, þ.e. að segja hugmyndir ákveðinna hagsmunaaðila um hin fjölbreyttustu og kostnaðarsömustu mál sem þeir fullyrða að séu samfélaginu til góða. Það trúboð er hins vegar að meginstefnu til kostað af fólki sem ekkert val hefur um þá kostun, skattborgurum.

Og þótt deila megi um siðferðislegan grundvöll þess að lofa fólki himnavist gegn greiðslu 400 króna á dag, þá verður enginn látinn sæta refsingum (a.m.k. ekki veraldlegum) fyrir að standa ekki skil á því gjaldi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.