Hugmyndafræði eftir hentugleika?

Getur einstaklingur gegnt stöðu sem er í ósamræmi við lífsskoðanir hans?

Nýlega var fjallað um formann Útvarpsráðs á vefsvæði Silfurs Egils undir yfirskriftinni valkvæð frjálshyggja, en formaðurinn er yfirlýstur frjálshyggjumaður. Í greininni er dregið í efa að frjálshyggjumaður geti gegnt þessari stöðu ef hann ætlar að vera samkvæmur skoðunum sínum og eru þessar vangaveltur vissulega áhugaverðar. Getur einstaklingur haldið fram ákveðnum skoðunum eða hugmyndafræði ef hann lifir ekki samkvæmt þeim til hins ýtrasta? Dregur þetta á einhvern hátt úr heilindum hans eða þeirrar hugmyndafræði sem hann stendur fyrir?

Það er nauðsynlegt að taka það fram að þessir erfiðleikar í sambandi við hugmyndafræði annars vegar og hegðun hins vegar eru ekki einskorðaðir við frjálshyggju. Þannig voru kommúnistar ósammála þeim sem vildu starfa með atvinnurekendum og enn má greina þannig umræðu innan ASÍ. Femínistar hafa löngum klofnað í annars vegar þá sem vilja starfa með karlmönnum að jafnréttismálum og hins vegar þá sem telja að sem minnstur samgangur eigi að vera milli kynjanna.

Stjórnmálaflokkar hafa alltaf greint á milli hugmyndafræði annars vegar og stefnu hins vegar. Þetta er sérstaklega áberandi í samsteypustjórnum þar sem nauðsynlegt getur verið að hverfa frá yfirlýstri stefnu til þess að samkomulag náist um stjórnarmyndun. Það vekur aftur spurningar um áhrif kjósenda og eðli lýðræðis sem ekki gefst kostur á að ræða hér. Rannsóknir Svans Kristjánssonar prófessors í stjórnmálafræði hafa sýnt að lítil tengsl eru á milli hugmyndafræði og stefnu íslenskra flokka og aðgerðir þeirra hverfa enn lengra frá yfirlýstri hugmyndafræði. Þess vegna hefur sömu spurningum verið varpað upp um þá og einstaklinga.

Í rauninni er eðlilegt að einstaklingur geti haft ákveðnar skoðanir án þess að hann lifi eftir þeim að öllu leiti. Ofurseld hugmyndafræði getum við ekki tekið eðlilegan þátt í þjóðfélagsumræðunni og okkur verða settar þröngar skorður við val á starfi og áhugamálum. Þannig mætti andstæðingur hins frjálsa markaðar ekki vinna hjá einkafyrirtæki og hreinir frjálshyggjumenn gætu ekki tekið þátt í íþróttastarfsemi, farið í leikhús eða stundað nám sem styrkt er af ríkisvaldinu. Hugmyndafræði er fyrst og fremst skoðun einstaklingsins á því hvert beri að stefna og eflaust mál telja á fingrum annarrar handar þá sem lifað hafa í einu og öllu samkvæmt ákveðinni hugmyndafræði.

En hvort sem við lifum í samræmi við það sem við predikum hljótum við að fagna upplýstri umræðu um eðli hugmyndafræði og sjálfsagt er að herma upp á einstaklinga þegar þeir virðast breyta þvert gegn því sem þeir bjóða öðrum. Ef til vill er þó rétt að hafa í huga kenningu Grahams Allisons um ákvörðunartöku en hann hélt því fram að afstaða fólks réðist af því hvaða stöðu það gegndi. Eða með orðum Allisons: ,,Where you stand depends on where you sit“. Látum það verða lokaorðin í bili.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)