Dulbúin aftökusveit

Hugmyndir ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að rétta yfir meintum hryðjuverkamönnum í herdómstólum eru ógnvekjandi. Ef bandaríska ríkið er ekki tilbúið að rétta yfir Bin Laden og félögum á þann hátt að mark sé takandi á er allt eins gott að það dragi þá einfaldlega fyrir aftökusveit upp á gamla móðinn.

Hugmyndir ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að rétta yfir meintum hryðjuverkamönnum í herdómstólum eru ógnvekjandi. Þegar ég frétti fyrst af þessari hugmynd Johns Ashcroft hélt ég að hér væri einungis á ferðinni enn ein klikkuð hugmyndin úr herbúðum þess einkennilega manns sem ekki væri vert að taka alvarlega. En viti menn, það næsta sem ég veit þá er Bush blessaður búinn að leggja blessun sína yfir þessar hugmyndir. Þá fór hrollur um mig.

Talsmenn slíkra réttarhalda telja að ekki sé unnt að rétta yfir Bin Laden og félögum í venjulegum réttarhöldum. Þannig lýsti öldungardeildarþingmaðurinn Joseph Lieberman yfir áhyggjum sínum með að hefðbundin réttarhöld „með öllum þeim réttindum og reglum um málsmeðferð sem þeim fylgir gætu leitt til þess að stóru fiskarnir sleppi.” Þessi skoðun Liebermans lýsir ótrúlegu vantrausti hans á bandarískt réttarkerfi. Það er með ólíkindum að þessi skoðun, sem er mjög útbreidd í Bandaríkjunum, veki fólk ekki til umhugsunar um ástand þess réttarríkis sem það býr í. Ef menn eru hræddir við að upplifa réttarhöldin yfir O.J. Simpson á nýjan leik og hryllir við því, er þá ekki vert að gera eitthvað í réttarkerfinu til þess að koma í veg fyrir að þess konar farsi endurtaki sig?

Önnur rök sem talsmenn herréttarhalda nota óspart er að ómögulegt væri að bera fram þau sönnunargögn sem bandaríska ríkið býr yfir án þess að ógna getu ríkisins til þess að afla slíkra gagna í framtíðinni. Þetta er vissulega réttmætt sjónarmið. En svo virðist sem þetta hafi ekki háð saksóknurum í svipuðum málum hingað til. Á síðustu misserum hefur í New York verið réttað yfir 26 jihad hryðjuverkamönnum sem tóku þátt í hryðjuverkum á borð við sprengingu bandarísku sendiráðanna í Kenía og Tansaníu. Hingað til hafa öll réttarhöldin endað með sakfellingu án þess að unnt sé að benda á tilvik þar sem þjóðaröryggi var ógnað. Þetta er meðal annars vegna þess að í Bandaríkjunum eru nú þegar í gildi viðamikil lög um meðferð viðkvæmra upplýsinga sem ógnað gæti þjóðaröryggi.

En gefum okkur sem snöggvast að væntanleg réttarhöld yfir Bin Laden og félögum séu það frábrögðin öllum öðrum réttarhöldum að ekki sé talið fært að þau fari fram samkvæmt þeim reglum sem gilda í almennum réttarhöldum í Bandaríkjunum. Eru herréttarhöld að hætti Sóvíetríkjanna þar sem sakborningur er rúinn nánast öllum sínum borgaralegu réttindum virkilega besta lausnin. Væri ekki nær að fara einhvern milliveg þar sem grundvallarréttindum sakborninga svo sem sakleysi þar til sekt er sönnuð, almennileg vörn og áfrýjunarréttur eru höfð í heiðri á meðan komið er til móts við sækjendur með því að slaka á reglum um málsmeðferð innan skynsamlegra marka og leyfa lokun réttarhaldanna þegar fjallað er um viðkvæm sönnunargögn?

Herréttarhöld eru ekkert annað en skrípaleikur. Ef bandaríska ríkið er ekki tilbúið að rétta yfir Bin Laden og félögum á þann hátt að mark sé takandi á er allt eins gott að það dragi þá einfaldlega fyrir aftökusveit upp á gamla móðinn. Þannig er almenningur a.m.k. ekki dreginn á tálar með einhverjum leikaraskap.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.