Áfram Ísland!

Heimsmeistaramótið í handbolta hefst á morgun í Portúgal, íslenska landsliðið mun þar fyrst mæta Áströlum. Gengi íslenska liðsins hefur verið upp og ofan á undirbúningstímabilinu fyrir mótið og ekki tryggt að glæsilegum árangri á EM verði fylgt eftir.

Íslenska handboltalandsliðið mun á morgun keppa sinn fyrsta leik á heimsmeistarmótinu í handbolta í Portúgal. Ásamt Íslendingum eru í A-riðli Grænlendingar, Þjóðverjar, Quatar, Ástralir og gestgjafarnir Portúgalir. Leikurinn á morgun er á móti Áströlum, sem hafa nú ekki verið þekktir fyrir framgöngu sína á handboltavellinum. Ástralirnir unnu keppni “Oceania Handball Federation” um sæti sambandsins á HM, þrjú lönd kepptu um sætið, Cook Icelands, Vanuatu og Ástralía – Ástralirnir vægast sagt rústuðu þeim. Á morgun er hins vegar væntanlega komið að okkur að rústa Áströlum.

Út vikuna er síðan leikið í riðlinum. Leikurinn við Þjóðverja ætti að vera erfiðasti leikurinn í riðlunum samkvæmt bókinni og er hann síðasti leikur liðsins og er næsta sunnudag. Gestgjafarnir hafa einnig góða stöðu á heimavelli og ætla þeir sér svipað langt og Íslendingar, sá leikur verið því mikilvægur og þegar er orðið uppselt á leik Íslendinga og Portúgala þann 23. janúar.

Fjögur lið komast upp úr riðlinum og líklegast verða Íslendingar í öðru sæti á eftir Þjóðverjum sem voru í öðru sæti á EM. Portúgalir sem voru í níunda sæti á EM verða þá í þriðja sæti riðilsins og fjórðir segjum Quatar. Þegar í milliriðla er komið harðnar keppnin, í okkar milliriðli spila fjögur eftstu liðin í A og B riðli. Í B riðli eru sterkastir Spánverjar, Júgóslavir og Pólverjar. Efstu tvö sætin í hverjum milliriðli komast í undanúrslitin og raðast þar um hvaða sæti hver þjóð spilar. Komist íslenska landsliðið upp úr þeim riðli er það nálægt markmiði sínu að spila um sæti á næstu Ólympíuleikum en til að tryggja það þarf liðið að enda í 7. sæti eða hærra.

Danir gera sér miklar vonir um medalíu og eru nú mjög líklegir til að ná góðum árangri. Evrópumeistarar Svíar ætla sér einnig stóra hluti en eru ekki líklegir til að vinna, liðið er orðið gamalt og þreytt, fimm lykilleikmenn í dag spiluðu einnig með liðinu fyrir 13 árum þegar sigurganga þeirra hófst og hefur undirbúningurinn liðsins gengið illa. Þjóðverjar eru hins vegar til alls líklegir en munu sennilega ekki spila um fyrsta sætið vegna þess að þá vantar leikmenn vegna meiðsla, þar á meðal er þeirra sterkasti leikmaður, Daniel Stephan. Rússar hafa ekki staðið undir fyrri frægð upp á síðkastið en gætu samt gert góða hluti vegna sterkrar hefðar. Eftirfarandi niðurröðun því er spá mín og minna ráðgjafa um úrslit heimsmeistaramótsins:

1. Danmörk

2. Frakkland

3. Þýskaland

4. Svíþjóð

5. Spánn

6. Ísland

7 .Rússland

8. Júgóslavía

Gengi íslenska liðsins hefur verið upp og ofan á undirbúningstímabilinu og ekki tryggt að glæsilegum árangri á EM verði fylgt eftir. Hins vegar er ekkert sem gefur til kynna að við ættum ekki að ná í úrslitin og tryggja okkur Ólympíusæti. Áfram Ísland!

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)