Réttlæti eða rasismi?

Affirmative Action hefur verið mjög til umfjöllunar í Bandaríkjunum undanfarið. Hvítur stúdentar lögsækja skóla fyrir að veita minnihlutahópum forgang. Bush forseti hefur tekið afstöðu í málinu og liggur undir ámæli fyrir það. Málið getur orðið hið vandræðalegasta fyrir hann, sérstaklega í ljósi annarra nýliðinna atburða.

Nú eru kynþáttamál mjög í umræðunni í Bandaríkjunum. Fyrir nokkrum vikum lét þingmaður repúblíkana, Trent Lott út úr sér að betur væri komið fyrir Bandarísku þjóðinni nú ef hún hefði haft vit á að kjósa Strom Thurmond forseta landsins. En hans stærsta kosningamál var aðskilnaður kynþáttanna. Þetta mál var hið vandræðalegasta fyrir flokk George W. Bush forseta.

Nú hefur hæstiréttur Bandaríkjanna til umfjöllunar málsókn nokkurra hvítra stúdenta gegn ríkisáskólanum í Michigan. Málið byggist á því að lituðum stúdentum hafi verið veittur forgangur í umsóknum um skólavist, einmitt vegna kynþáttar þeirra. Þetta er það sem Bandaríkjamenn kalla Affirmative Action, hliðstætt því sem hér er kallað jákvæð mismunun.

Nú hefur Bush forseti sagt opinberlega að hann styðji málstað hvítu stúdentanna, en repúblíkanar hafa löngum verið andvígir Affirmative Action. Þetta hefur enn bætt olíu á eldinn. Athygli vekur að öryggisráðgjafi forsetans Condoleezza Rice hefur sagt að hún telji að aðgerðir sem þessar geti átt rétt á sér við vissar aðstæður, svo að ekki er einhugur um málið meðal nánustu samstarfsmanna forsetans.

Bush er frá Texas og honum hefur verið borið á brigsl að vera ekki mjög annt um réttindi svartra. Það þótti þó slá á þessa gagnrýni þegar hann réð Rice sem öryggisráðgjafa ríkisstjórnarinnar og fékk Colin Powel í stól utanríkisráðherra. Nú segja gagnrýnisraddir að þótt Bush vilji sýna af sér annað, þá vilji hann ekki ýta mjög undir réttindi svartra.

En málið er flókið og snýst ekki endilega um litarhátt. Í fullkomnum heimi myndi litarháttur ekki skipta máli við val inn í háskóla eða við ráðningar, en það er enn mjög langt í land með að það markmið náist. Víða í Bandaríkjunum er kynþáttahatur mjög sterkt og því má færa rök fyrir því að þar sé þörf á Affirmative Action.

Bush bendir á að víða hafi annars konar inntökureglur gefið mjög góðan árangur. Þær byggjast á að í stað þess að hafa e.k. kynþáttakvóta inn í skólana taki þeir ákveðið hlutfall nemenda úr hverjum miðskóla (high school). Þannig hafi tekist að velja inn bestu nemendur úr hverjum miðskóla og fá góðan þverskurð af þjóðfélaginu inn í skólana.

Í grundvallaratriðum er ég andvígur hvers kyns jákvæðri mismunun. En á stöðum þar sem réttindi fólks eru fótum troðin eða litið á á ákveðna hópa fólks sem annars flokks er vissulega þörf á slíkum aðgerðum. Hér á landi hefur einkum verið talað um kynjajafnrétti í tengslum við jákvæða mismunun. Það er þó fásinna að ætla að reyna að líkja saman aðstæðum kringum jákvæða mismunun hér á landi eða Affirmative Action í Bandaríkjunum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)