Kynjaverur stjórnmálanna

Í bókinni „The Political Animal”, eftir Jeremy Paxman, reynir höfundurinn að komast að því hvað það er sem rekur stjórnmálamenn áfram og hvort þeir eigi eitthvað sameiginlegt sem aðskilur þá frá hinum almenna borgara. Sumar niðurstöðurnar koma óneitanlega á óvart.

Í bókinni „The Political Animal”, eftir Jeremy Paxman, reynir höfundurinn að svara tveimur spurningum, sem reyndar eru nátengdar – jafnvel einungis tvær hliðar á sömu spurningunni. Annars vegar hvað það væri sem ræki fólk út í stjórnmál, hvað það væri í andlegu atferli fólksins sem gerði það að verkum að það legði á sjálft sig og sína nánustu allt það erfiði sem fylgir því að vera í pólitík. Hins vegar það hvað stjórnmálamenn ættu sameiginlegt, hvaða kosti og ókosti þeir hefðu til brunns að bera sem aðskildi þá frá hinum almenna borgara.

Rannsókn Paxmans var að miklu leyti einskorðuð við breska forsætisráðherra, með nokkrum undantekningum þó. Óþarfi er að taka það fram að stjórnmálamenn eru ekki allir nákvæmlega eins og að finna má fjölmargar undantekningar frá almennum niðurstöðum Paxmans. Þá eru þær byggðar á rannsóknum hans á breskum stjórnmálum og stjórnmálamönnum og ekki víst að þær eigi við um stjórnmálamenn í öðrum löndum.

Hvað varðar fyrri spurninguna segir Paxman að það sé ekki valdafíknin ein sem reki menn áfram í pólitík, heldur sé um að ræða undarlega blöndu af minnimáttarkennd og miklu sjálfsöryggi. Þetta hljómar e.t.v. mótsagnakennt, en Paxman færir fyrir því rök að það sem stjórnmálamenn sækist m.a. eftir sé staðfesting á því að þeir séu einhvers virði. Það að ná kosningu inn á þing sé hið fullkomna klapp á öxlina. Þá hafi forsætisráðherrarnir haft þá bjargföstu trú að þeir einir hafi haft til að bera hæfileikann til að stjórna landinu og leysa vandamál þess.

Það sem kemur hvað mest á óvart við lestur bókarinnar er hlutfall breskra forsætisráðherra sem misstu annað foreldra sinna áður en þeir sjálfir komust til manns. Af þeim sem gegnt hafa embættinu frá því um miðja átjándu öld hafa um 66% prósent þeirra misst foreldri, annað eða bæði, meðan hlutfall almennra borgara sem eins var, og er, ástatt um er í kringum eitt prósent.

Erfitt er að sjá hvaða áhrif foreldrismissir hefur haft á mennina, en tölurnar gefa það sterklega til kynna að áfallið hefur haft töluvert um það að segja hvaða stefnu þeir tóku í lífinu.

Það væri áhugavert að bera niðurstöður Paxmans saman við sambærilegar tölur um íslenska stjórnmálamenn. Væntanlega hafa forsætisráðherrarnir ekki verið nógu margir til að gefa nógu heildstæða mynd, en hægt væri að víkka rannsóknina þannig að allir ráðherrar sem setið hafa í ríkisstjórn á Íslandi féllu þar inn. Það er e.t.v. verkefni fyrir einhvern upprennandi stjórnmálafræðinginn?

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)