Kjörið skotmark

Stærilætin í Kim Yong-il hljóta að vera Bretum og Bandaríkjamönnum þyrnir í augum nú þegar verið er að sannfæra heimsbyggðina um allsherjarárás á Írak sem hið mesta þarfaverk.

Hernaðaruppbygging Bandaríkjamanna og Breta á Persaflóasvæðinu er nú í algleymingi. Í gær fyrirskipaði Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, liðsflutninga 35.000 hermanna til svæðisins og í dag lét flaggskip breska flotans, Ark Royal, úr höfn í Portsmouth ásamt flotasveit sinni. Innan örfárra vikna verður allt til reiðu til að veita Saddam Hussein náðarhöggið.

Mitt í þessu öllu finna vopnaeftirlitsmenn Sþ hvorki tangur né tetur af gjöreyðingarvopnum í Írak. Mönnum er reyndar vorkunn, 100 manns að leita að sem samsvarar eldspýtustokk af úrani á 300 þúsund ferkílómetra svæði. Þótt leitin beri engan árangur er það engin sönnun fyrir því að gjöreyðingarvopn eða áætlanir um þróun þeirra séu ekki til staðar í ríki Husseins.

En árangurslaus vopnaleit er ekki mesti höfuðverkur Bush-stjórnarinnar í viðleitni sinni að koma Saddam Hussein frá völdum. Kim Yong-il, sá óborganlegi einræðisherra, hefur sett stórt strik í reikninginn fyrir haukana í Washington með stærilátum sínum síðustu vikurnar. Nú síðast ákvað stjórnin í Pyongyang að segja landið frá alþjóðlegum samningi um útbreiðslu kjarnorkuvopna og upplýst er að þróun eldflauga sem borið geta kjarnorkuvopn heimsálfanna á milli er í fullum gangi þar eystra.

Það er því erfitt fyrir Bush og félaga að sannfæra heimsbyggðina að Saddam sé mesti bófinn nú um stundir. Kim Yong-il virðist bæði lengra kominn í þessum efnum og til alls líklegur, ef marka má yfirlýsingar stjórnar hans síðustu daga. Spurningin sem svara þarf er þessi: af hverju er knýjandi að koma Saddam frá völdum en ekki Kim Yong-il?

Afar freistandi er að benda á hið augljósa: olía. N-Kórea er fátækt land frá náttúrunnar hendi á miðað við Írak. Þar er því eftir litlu að slægjast og engir sérstakar hagsmunir í húfi. En fleira kemur til. Norður-Kórea er óumdeilanlega á áhrifasvæði Kína og það breytir öllu. Stríð þær gæti haft ósegjanlegar afleiðingar, því ekki er loku fyrir það skotið að Kínverjar drægjust inn í átökin.

Saddam á hins vegar enga volduga vini, og raunar enga vini, ef út í það er farið. Ekki spillir fyrir að hann situr á einum auðugustu olíulindum í heimi, auk þess sem segja má að veruleg landhreinsun yrði fyrir Íraka sjálfa af brotthvarfi Saddams af sjónarsviðinu.

Efast má um að Saddam sé mesta ógnin við heimsfriðinn, eins og Bush-stjórnin lætur í veðri vaka. Hann er hins vegar kjörið skotmark – í hernaðarfræðilegu, pólitísku og efnhagslegu tilliti – og það virðist ráða úrslitum um þá ákvörðun Bush og Blairs að steypa honum af stóli með allsherjarárás.

Borgar Þór Einarsson skrifar (Sjá alla)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.