Misheppnuð skyndikynni

Í seinustu viku auglýsti DV undir slagorðinu „Kynnumst DV á hundraðkall“. Undirritaður lét freistast og eyddi hundraðkalli í þriðjudagsblaðið. Sú reynsla lofar ekki góðu.

Útliti DV var nýlega breytt í takt við breytingarnar á íslenskum dagblaðamarkaði sem áttu sér stað með tilkomu mánudagsmoggans. Enn fremur mun blaðið hér eftir koma út um hádegi á mánudögum en ekki um morguninn eins og áður var. Það stafar af því að DV er prentað í prentsmiðjum Morgunblaðsins en ritvélarnarnar þar eru nú uppteknar við að prenta Moggann á mánudagsmorgnum. Um útlitsbreytingarnar verður ekki fjallað hér, þær eru væntanlega enn ein tilraun blaðsins til að finna sig á markaðnum eftir tilkomu Fréttablaðsins.

Hápunktur þessa tölublaðs DV, ef frá er talin fyrirsögnin „Fertugir offitusjúklingar deyja fyrr en aðrir“, er án efa skoðankönnunin þar sem Samfylkingin mælist í fyrsta skipti með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Eitthvað hafa blaðamenn DV orðið æstir yfir þessum niðurstöðum og dottið í slíkan fyrirsagnaham að hæfileiki þeirra til að leggja saman heilar tölur beið skaða af.

Ef að þingmannafjöldi bak við hvert framboð er reiknaður út kemur í ljós að Samfylkingin mundi fá 26 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 24, Framsóknarflokkurinn 8, Vinstri-Grænir 5 en Frjálslyndi flokkurinn nær ekki 5% lágmarksfylgi og fær því engan. Af þessu telur DV að „ljóst sé“ að meirihlutinn sé fallinn. Stöldrum nú aðeins við. Stjórnin fær 24+8=32 en minnihlutinn fær 26+5=31. Það er því ljóst að stjórnin heldur velli þvert á ályktun DV. Það stafar af þeim dulræna eiginleika tölunnar 32 að hún er stærri en talan 31.

Það er alveg ótrúlegt að „alvörublað“ skyldi gera slík mistök. Það sem verra er að ég sá þau aldrei leiðrétt. Menn hljóta að spyrja sig hvort að fólk sem kann ekki að leggja saman tveggja stafa tölur eigi yfirleitt að sjá um að framkvæma skoðanakannanir. Svarið við slíkri spurningu hlýtur að vera nei. DV hefur greinilega ekki mannskap eða þekkingu til að framkvæma slíkar kannananir ef að stærðfræðikunnátta sem krafist er af 8 ára börnum er þeim ofviða. DV hefur oft áður gert mistök við túlkun slíkra úrslita. Fyrir skömmu reiknuðu þau Ingibjörgu Sólrúnu inn í þingsæti þrátt fyrir að hún hafi verið sú ellefta inn en aðeins 9 þingmenn eru kjördæmakjörnir. Þar fyrir utan virðist DV ekki átta sig á nú er þingsætum úthlutað eftir annarri aðferð en áður (heiltöludeiling í stað reglu hinna stærstu leifa) svo Ingibjörg hefði líklegast ekki náð inn hvort sem er.

Menn ættu að halda sig við það sem þeir hafa vit á. Stærðfræðilegir hæfileikar blaðamanna DV gefi ekki til kynna að þar á bæ hafi menn þekkingu til að framkvæma skoðanakannanir. Þessi kynni mín á DV seinustu viku voru ekki til að auka traust mitt á blaðinu. Frekar má segja að um misheppnuð skyndikynni hafi verið að ræða.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.