Glæsilegar skattalækkanir

George W. Bush kom nánast öllum á óvart þegar skattastefna hans var kynnt fyrr í vikunni en hún felur í sér umtalsverðar skattalækkanir, meiri en bjartsýnustu menn höfðu gert sér vonir um. Tillögurnar fela í sér margar breytingar sem allar eiga það sameiginlegt að stuðla að auknum vaxtarhraða hagkerfisins.

Stærsta og sennilega mikilvægasta breytingin sem lögð er til er að afnema tvísköttun á arðgreiðslum til einstaklinga með öllu. Undanfarin ár hefur álagður skattur á arðgreiðslur verið með ólíkindum í Bandaríkjunum en allt að 70% skattur hefur verið greiddur af þeim en nú stendur til að lækka hann í um 35% sem er ekki fjarri því sem við búum við hér á landi. Einstaklingar munu því halda efir 65 centum á hvern dollar í hagnað í stað 30 centa nú.

Þessi gengdarlausa skattheimta sem hefur viðgengist á arðgreiðslur til einstaklinga hefur haft talsvert neikvæðar afleiðingar á efnahagslíf Bandaríkjanna og sennilega heimsins alls enda hafa fyrirtæki þar einfaldlega í stórum stíl hætt að borga út arð til hluthafa sinna. Í staðinn hafa þau ráðstafað arðinum í meira mæli sjálf, nema hvað, en samt oft til óskynsamlegrar uppbyggingar á kostnað hagsmuna hluthafa, eiganda sinna. Hvatinn til að fara sem best með féð hefur nefnilega ekki verið til staðar heldur hefur ákvarðanatakan hvernig verja skuli hagnaðinum verið brengluð af óskynsamlegu skattkerfi. Gífurleg fjárfesting á síðustu árum í alls konar vitleysu má að töluverðu leyti rekja beint til skattaumhverfisins.

Þessi stefnubreyting mun draga úr tekjum ríksins til skamms tíma og verður því mætt með tvennum hætti. Annars vegar með minnkun umsvifa ríkisins, vonandi varanlega, sem leiðir til aukinnar skilvirkni í hagkerfinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki fara betur með fé en ríkið. Hins vegar með því hvetja til hraðari vaxtar hagkerfisins meðal annars vegna þess að hagnaði fyrirtækja er varið á skynsamlegri hátt óháð brenglaðu skattkerfi. Í stað þess að einblína á tekjutap ríkisins er nú horft til vaxtar hagkerfisins – hagvöxtur en ekki hærri skattar.

Með því að mynda góð skilyrði fyrir hagvöxt og hvetja til hegðunar sem styrkir stoðir hagkerfisins hefur Bush nú gefið tóninn í efnahagstefnunni. Hingað til hefur Bush stjórnin verið gagnrýnd úr nánast öllum áttum fyrir stefnuleysi í innanríkismálum og þá sérstaklega í efnahagsmálum. Þegar Bush kynnti stefnu sína fyrr í vikunni þá lét hann þessi orð falla og hafi hann einhvern tímann verið gagnýndur fyrir að vera lélegur ræðumaður þá verður hann seint gagnrýndur fyrir að hafa ekki framúrskarandi hugsjón að leiðarljósi.

Government spends a lot of money, but it doesn’t build factories, it doesn’t invest in companies, or do the work that makes the economy go. The role of government is not to manage or control the economy from Washington, D.C., but to remove obstacles standing in the way for faster economic growth. That’s our role.

Eftir hryðjuverkin lagði Bush línurnar hvernig fara skuli fyrir óvinum frelsisins og nú fylgir hann góðum árangri á þeim vettvangi eftir með mestu skattalækkunum frá því að Reagan lækkaði tekjuskatt einstaklinga verulega á 9. áratugnum. Það skildi þó aldrei vera að núverandi forseti Bandaríkjanna sem kommúnistar og sósíalistar keppast hér á landi sem og annars staðar við að ófrægja sé alls ekki sá vitleysingur sem þeir reyna að sannfæra sig og aðra um heldur leiðtogi af sama kaliber og Reagan og Thatcher.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)