Rétturinn til þess að ljúga

Árið 2007 fór Xavier Alvarez í framboð í Kaliforníufylki. Xavier hafði svo sannarlega átt viðburðarríka ævi, hann var atvinnumaður í íþróttum, fyrrverandi hermaður, verkfræðingur að mennt og hafði verið giftur frægri kvikmyndastjörnu.

Árið 2007 fór Xavier Alvarez í framboð í Kaliforníufylki. Xavier hafði svo sannarlega átt viðburðarríka ævi, hann var atvinnumaður í íþróttum, fyrrverandi hermaður, verkfræðingur að mennt og hafði verið giftur frægri kvikmyndastjörnu.

Kosningabarátta Xaviers varð ekki síður eftirminnileg, en í einni af heimsóknum sínum til kjósenda bjargaði hann konu frá bráðum bana þar sem hún hafði orðið undir ísskáp á heimili sínu. Það var reyndar ekki í fyrsta skipti sem Xavier hafði bjargað mannslífi, en bandaríski sendiherrann í Íran átti honum líf sitt að launa. Fyrir starf sitt í hernum hafði hann síðan hlotið æðstu mögulegu viðurkenningu, enda hafði hann orðið fyrir allt að fimmtán skotárásum.

Xavier vann kosningarnar, en eftir það fór að halla undan fæti. Það kom nefnilega í ljós að ekkert af því sem hann hafði sagt um sjálfan sig var rétt. Hann hafði aldrei verið í hernum, hann hafði ekki lokið háskólamenntun og hvorki lent í lífsháska né bjargað mannslífi.

Óheiðarleikinn átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar. Árið 2006 höfðu verið samþykkt lög þar sem það gat varðað allt að sex mánaða fangelsisvist að ljúga til um það að hafa fengið viðurkenningu frá bandaríska hernum. Hægt var að þyngja refsinguna um aðra sex mánuði ef viðkomandi hafði sagst hafa fengið æðstu viðurkenningu hersins, en það var einmitt það sem Xavier hafði gert. Hann var ákærður, dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og þurfti að greiða sekt.

Mál Xaviers rataði alla leið til Hæstaréttar Bandaríkjanna og í gær hlýddu dómararnir á þessa skrautlegu sögu. Þeir sem eru hlynntir lögunum telja lygar af þessu tagi vera refsiverð svik, enda standi sérstök rök til þess að vernda þær hetjur sem sannarlega hafi fengið viðurkenningu fyrir störf sín í þágu hersins.

Aðrir telja lögin hins vegar aðför að tjáningarfrelsinu, enda myndu fæstir telja að Xavier ætti skilið refsingu fyrir að hafa til dæmis logið til um háskólamenntun sína. Xavier sagði af sér þegar upp komst um ósannsöglina og það er fátt sem bendir til þess að lygarnar hafi valdið tjóni fyrir aðra en hann sjálfan.

Niðurstöðu í málinu er að vænta í byrjun sumars. Það er nokkuð öruggt að dómararnir Antonin Scalia og John Roberts munu verða í hópi þeirra sem telja lögin standast stjórnarskrá, en afstaða annarra dómara til málsins er óljósari. Xavier hefur hins vegar í öllu falli skráð nafn sitt varanlega í réttarsögu Bandaríkjanna og ætti því að geta sagt rétt frá að minnsta kosti einum eftirminnilegum hluta lífshlaupsins.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)