Ranglætið sigrar

Það er fátt sem getur nú komið í veg fyrir að niðurstaðan úr prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvestur-kjördæmi standi þrátt fyrir kosningamisferlið sem þar átti sér stað.

Það er fátt sem getur nú komið í veg fyrir að niðurstaðan úr prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvestur-kjördæmi standi þrátt fyrir kosningamisferlið sem þar átti sér stað.

Fyrst var reynt að taka á málinu í kjördæminu sjálfu. Það leiddi til alls kyns furðulegra aðgerða og ákvarðana hjá kjörnefnd og kjördæmisráði en m.a. hefur komið fram að sumar ákvarðanir kjörnefndar voru teknar af fáum einstaklingum í nefndinni án fundar eða nokkurs samráðs við aðra í kjörnefndinni. Síðan var málið kært til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins þar sem hún er æðsta vald flokksins á milli landsfunda og ljóst var að valdastofnanirnar í héraði væru vanhæfar til að taka á málinu. Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins treysti sér hins vegar ekki til að taka á málinu og sagðist ekki geta gripið inn í samhljóða og ágreiningslausar ákvarðanir kjörnefndar og stjórnar kjördæmisráðs í héraði. Þannig að boltinn var kominn aftur heim í hérað. Í gær sagði fulltrúi í kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu sig úr nefndinni í mótmælaskyni þar sem ekki var áhugi innan kjörnefndarinnar til að taka kærur vegna prófkjörsins til umfjöllunar. Að sögn fulltrúans hafði formaður kjörnefndarinnar lýst því yfir að hann nennti ekki að lesa greinagerð Vilhjálms Egilssonar, alþingismanns um kosningamisferlið. Hringnum er því lokað og enginn mun taka á málinu.

Þetta þýðir að eitt mesta kosningasvindl sem vitað er um í sögu lýðveldisins er nú lokið með fullkomnum sigri óréttlætisins. Þeir sem höfðu rangt við komust upp með það og þeir sem reyndu að spyrna við fótum og upplýsa misferlið voru sendir til Washington.

Rétt er að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að tala um neitt smávægilegt kosningasvindl einstakra manna heldur stórfellt kosningamisferli sem einræðisherrar í harðræðisríkjum hefðu verið fullsæmdir af. Það er ljóst að hópur manna á Akranesi og nágrenni fór um bæinn eins og eldur í sinu með kjörkassa og kjörgögn. Farið var heim til fólks, á vinnustaði, í skip, á rúntinn og á alla mögulega og ómögulega staði með kjörgögn til að láta fólk kjósa. Til dæmis má nefna að samkvæmt heimildum sem pistlahöfundur hefur ástæðu til að treysta þá var kjörkassi staðsettur við hliðina á lottóvél í sjoppu á Akranesi og fólki boðið upp á að kjósa sína menn á meðan þeir fylltu út lottóseðilinn!

Í Morgunblaðinu þann 22. nóvember síðastliðinn kom fram að u.þ.b. 600 manns kusu utan kjörstaðar á Akranesi en 6000 manns tóku þátt í prófkjörinu í heildina. Til samanburðar þá kusu 300 manns utankjörstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Akranes var samt ekkert einsdæmi því þetta virðist hafa viðgengist í smærra mæli út um gervallt kjördæmið.

Virðingarleysið við meðferð kjörgagna var þvílíkt að það er alls óvíst hvort fólk hafi látið staðar numið við þetta, sérstaklega þegar litið er til þeirrar taugaveiklunar sem einkenndi kosningabaráttuna í kjördæminu. Stuðningsmenn einstakra frambjóðenda voru eftirlitslausir með kjörgögn út um allt kjördæmi, oftast voru engir vottar viðstaddir atkvæðagreiðsluna og þegar vottar voru viðstaddir þá voru það yfirleitt menn sem voru þátttakendur í þessum farsa. Menn hefðu hæglega getað kosið fyrir hvern sem er eða breytt atkvæðum eftir á án þess að það kæmist nokkurn tímann upp. Það mun væntanlega aldrei koma í ljós hvort menn séu sekir eða saklausir af slíkum verknaði þar sem enginn áhugi virðist vera á því að upplýsa málið.

Það getur enginn þátttakanda í prófkjörinu firrt sig ábyrgð með því að halda fram að þeir hafi ekki haft vitneskju um þetta enda liggur það fyrir að þetta var alkunna í öllu kjördæminu. Jafnframt þarf engan sérfræðing í kosningum til að vita að öll kosningabarátta eru skipulögð eins og pýramídi og á toppinum trónir frambjóðandinn og/eða kosningastjórinn hans. Þvert á það sem margir stjórnmálamenn vilja að almenningur haldi þá gerist afskaplega lítið af sjálfu sér í kosningabaráttu. Toppurinn á pýramídanum veit undantekningalítið um allt sem fylgismennirnir eru að gera enda stjórnar hann baráttunni og yfirleitt er ekkert gert án þess að ráðfæra sig við hann. Það er móðgun við heilbrigða skynsemi að halda því fram að einstaklingar sem eru svo harðir stuðningsmenn einhvers frambjóðanda að þeir taka þátt í svindli fyrir hann séu ekki í neinu sambandi við frambjóðandann.

Það er erfitt að skilja af hverju engin valdastofnun innan Sjálfstæðisflokksins vill taka á þessu máli, upplýsa það og bregðast við. Það hlýtur að þjóna langtímahagsmunum flokksins best að taka afdráttarlausa og harða afstöðu gegn slíku kosningamisferli svo ekki sé talað um hagsmuni allra frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjörinu. Ef þetta verður niðurstaðan þá mun hinn almenni flokksmaður í Sjálfstæðisflokknum einnig læra dýrmæta lexíu sem hann gæti tekið upp á að nýta sér í framtíðinni innan flokksins. Réttlætið sigrar ekki alltaf að lokum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.