Beint kjör alþingismanna

Væri ekki miklu betra ef maður þyrfti ekki að kjósa einhvern einn flokk en gæti þess í stað kosið þá af frambjóðendum flokkanna sem manni hugnast best?

Væri ekki miklu betra ef maður þyrfti ekki að kjósa einhvern einn flokk en gæti þess í stað kosið þá af frambjóðendum flokkanna sem manni hugnast best?

Núverandi kerfi gerir það að verkum að Alþingi er fullt af litlausum já-mönnum. Flokksaginn er slíkur að það finnst varla alþingismaður sem er tilbúinn að berjast fyrir sannfæringu sinni. Það er stefna flokksins, þ.e. lægsti samnefnari síðasta landsfundar, sem blívar. Flestir alþingismenn hafa ekkert nýtt og áhugavert fram að færa. Og það er ekki nema von. Ef svo væri myndu þeir fá skömm í hattinn frá flokksforystunni.

Þar að auki er enginn flokkur á Íslandi sem er virkilega þess virði að kjósa. Vitaskuld eru sumir skárri en aðrir. En allir hafa þeir alvarlega ókosti í mínum augum. Mér finnst ég líka alltaf vera að heyra að fólk ætli að kjósa þennan eða hinn flokkinn af því að hann er „skástur”.

En þetta þarf ekki að vera svona. Kosningar til alþingis gætu verið með svipuðu sniði og prófkjör flokkanna. Til dæmis mætti hafa þetta þannig að hver flokkur byði upp á 22 frambjóðendur (20 í landsbyggðarkjördæmum) og svo mættu kjósendur merkja við þá 11 (10 í lbkj.) frambjóðendur, úr hvaða flokki sem er, sem þeim hugnast best. Þannig gæti maður kosið bæði Ingibjörgu Sólrúnu og Davíð ef manni finnst þau bæði eiga erindi á Alþingi.

Svona kerfi myndi einnig gera það að verkum að það væri mun auðveldara að kjósa málefni. Þannig gæti maður kosið frambjóðendur sem styðja inngöngu Íslands í Evrópusambandið úr öllum flokkum. Eða frambjóðendur sem eru fylgjandi afnámi styrkjakerfis í landbúnaði úr öllum flokkum nema Framsókn.

Maður gæri kosið þá frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sem eru frjálslyndir án þess að þurfa að kjósa í leiðinni alla þá sem eru bara íhaldssamir. Og maður gæti kosið þá frambjóðendur Samfylkingarinnar sem eru frjálslyndir án þess að þurfa að kjósa alla þá sem eru gamaldags forsjárhyggjufólk. Maður gæti kosið Halldór eða Sif án þess að þurfa að styðja hina vitleysingana í Framsóknarflokknum. Svo er aldrei að vita nema maður merkti við skásta frambjóðanda Vinstri-grænna bara til þess að sjónarmið þeirra í umhverfismálum eigi málsvara á Alþingi.

Væri þetta ekki miklu betra kerfi?

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.