Stefnir í minni hagnað völvunnar á næsta ári

Þéttur vindstrengur gerir aðkomuna að íbúð Völu Kazcynski háskalega. Þunn föl liggur yfir lúmskum hálkublettum á Miðbakkanum. Blaðamenn Flugufótarins hanga á bjöllunni. Það er íbúð 99 á efstu hæð. Stærsta íbúðin í glæsihýsinu.

Þéttur vindstrengur gerir aðkomuna að íbúð Völu Kazcynski háskalega. Þunn föl liggur yfir lúmskum hálkublettum á Miðbakkanum. Blaðamenn Flugufótarins hanga á bjöllunni. Það er íbúð 99 á efstu hæð. Stærsta íbúðin í glæsihýsinu.

Vala ansar loks dyrasímanum. „Ég veit hverjir þið eruð. Ég átti von á ykkur einmitt núna,“ segir hún og sendir skilaboð um að húsvörðurinn hleypi okkur inn. Húsvörðurinn er á óræðum aldri, með hatt og hanska. Líka grímu. Okkur er vísað inn í glæsilega lyftu, og húvörðurinn snýr lykli og ýtir á gylltan takka. Það er ekkert númer á takkanum heldur stafirnir VK í rómanskri leturgerð. Þegar þrýst er á takkann dofna ljósin, angan af reykelsi berst um lyftuna, og ljúfir hugleiðslulegir gítartónar hljóma. Sennilega Friðrik Karlsson. Lyftan opnast beint inn í íbúðina.

Íbúðin er nánast tóm. Áberandi sturtuklefi er við gluggann sem snýr út að höfninni. Perskneskt teppi er á gólfinu og nokkrir púðar. Annar húsbúnaður er ekki sjáanlegur í stofunni, fyrir utan tvær aflmiklar viftur. Vala situr á einum púðanum og í lotus-stellingu. Hún er íklædd silkislopp og er með hefðbundna bláa sóttvarnagrímu fyrir vitum sér, en þar að auki er hún með logsuðuhjálm spenntan á sig. Hún er íklædd stálhönskum eins og tíðkaðist hjá riddururm miðalda. Vifturnar blása kröftuglega sitt hvorum megin við hana þannig að það stendur töluverður trekkur á blaðamenn flugufótarins þegar þeir nálgast Völu.

„Komið ekki nær,“ hrópar hún þegar blaðamenn eru komnir í rúmlega langstökssvegalengd frá henni. „Hér gildir sjö metra reglan. Setjist niður þar sem þið eruð,“ bætir hún við og rennir í áttina til okkar járnfati með sprittbrúsa. „Sprittið ykkur, svo megið þið tala.“

Blaðamönnum Flugufótarins finnst mikið til þessara sóttvarnaráðstafana koma og gera tilraun til að hrósa Völu fyrir skipulagið. „Hér er greinilega allt upp á tíu í covid vörnum. Þú ætlar greinilega ekki að smitast“ Hún hnusar yfir þessu: „Foj. Þetta er nú bara vegna vegna viðskiptahagsmuna. Sjálf hef ég engar áhyggjur af covid. Faraldurinn hefur verið mér ákaflega góður. Ég hef mokgrætt allt þetta ár, enda kom forspárgáfan sér vel.“

Þegar þarna er komið sögu átta blaðamennirnir sig betur á umhverfinu. Íbúðin er ekki eins tóm og virtist í fyrstu. Þegar litið er til hægri sést inn í dyragætt herbergis sem er stútfullt af hvítum kössum. Sama sjón blasir við á vinstri hönd.

„Þetta er bóluefnið sem ég hef reddað fyrir íslensku þjóðina,“ segir hún sigri hrósandi þegar hún áttar sig á að þetta er að renna upp fyrir okkur. „Ég hef gríðarlega góð og djúpstæð tengsl í alþjóðlegu viðskiptalífi og hef nýtt mér það í þessum heimsfaraldri. Fyrst reddaði ég mörg hundruð öndunarvélum, sem ég seldi á margföldu verði útum heim allan, svo gerði ég skortsölusamninga um hlutabréf í flugfélögum. Fyrir gróðann af því keypti ég fyrirtæki sem framleiðir sóttvarnagrímur og hef rakað inn peningum á því. Þann pening notaði ég svo til þess að kaupa þessi bóluefni frá Pfizer löngu áður en aðrir gerðu sér grein fyrir því að það mundi virka,“ segir hún og glottir þannig að það sést í augntönn úr skíragulli.

Hún segir að árið 2020 hafi verið árið þegar hún snéri loksins baki við kommúnismanum og byrjaði að trúa á mátt óhefts kapítalisma. „Ég er löngu hætt að spá opinberlega fyrir um einhvern tittlingaskít eða gefa fólki vísbendingar um þeirra eigin líf. Það er miklu meiri peningur í svona snúningum heldur en þjónustu við almenning.

„Mig dreymdi þessa leðurblöku haustið 2019 og vissi að þetta myndi fara af stað. Nákvæmlega eins og það gerðist,“ segir hún.

En þú hefur væntanlega ekki getað varað neinn við hættunni?spyrja blaðamenn.

„Nei. Mér datt það ekki hug. Ég er reyndar mjög náin mörgum helstu yfirmönnum alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og hef einmitt verið ráðgjafi í farsóttarmálum um árabil. En ég sagði auðvitað ekki orð, enda hefði ég þá setið uppi með mörg hundruð öndunarvélar sem enginn markaður hefði verið fyrir. Ég er nú ekki alveg rugluð,“ bætir hún við hlæjandi. „Það er nú fegurðin við kapítalismann að hann verðleggur ætíð alla hluti 100% rétt, og ef heimsbyggðin hefði raunverulega viljað komast hjá þessum heimsfaraldri þá hefði að sjálfsögðu myndast skilvirkur markaður með þá þekkingu sem þurfti til að afstýra honum. Svo var ekki. Markaðurinn hefur talað,“ bætir hún við.

Og þetta hefur allt spilast vel fyrir þig, semsagt?

„Já. Þetta hefur verið dásamlegur faraldur.“

En hverju spáirðu um árið 2021?

„Ég ætla nú ekki að gefa neinar nákvæmar upplýsingar um það. En ég get þó upplýst að margir munu telja að komandi ár verið betra og skemmtilegra en það sem er að líða—og allt þetta kóf mun gleymast hratt, nánast eins og það hafi aldrei skeð. En sjálf óttast ég að ég mun græða minni peninga, þannig að það er ákveðin beygur í mér. En maður getur auðvitað alltaf vonast eftir tækifærum,“ segir hún að lokum. Hún bandar frá sér höndum og vísar okkur á dyr. „Drífið ykkur nú út drengir, grípið tækifærin. Ég þarf að fara á símafund með Pfizer.“

Þegar út er komið hefur lægt. Það er byrjað að skjóta upp flugeldum. Lífið virðist vera að færast í ögn venjulegri farveg. Tíminn líður og læknar sár og kannski er það rétt hjá Völu að þessi skrýtni tími, sem er svo lengi að líða meðan á honum stendur, verði eins og eitt augnablik í minningunni þegar lífið er aftur komið í eðlilegra horf. Það má vona.

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)