Ungur nemur, gamall … æi vottever

Það þykir ekki í takt við tíðarandann, nú þegar ensk blótsyrði hafa hlotið náð fyrir augum Marðar Árnasonar og eru talin mikilvægur þáttur í íslensku talmáli, að agnúast út í táninga, málfar þeirra eða þekkingarskort þegar að almennri kurteisi kemur.

Það þykir ekki í takt við tíðarandann, nú þegar ensk blótsyrði hafa hlotið náð fyrir augum Marðar Árnasonar og eru talin mikilvægur þáttur í íslensku talmáli, að agnúast út í táninga, málfar þeirra eða þekkingarskort þegar að almennri kurteisi kemur. Samt sem áður verður imprað á málefninu hér – þó með öllum venjulegum fyrirvörum um að ekki séu allir unglingar eins, og að til séu fimmtán ára drengir sem mælandi .eru á íslenska tungu.

Maðurinn er eitt af örfáum dýrum Jarðarinnar sem flutt getur þekkingu milli kynslóða. Eldri einstaklingar miðla þeim yngri af reynslu sinni eða reynslu þeirra sem á undan gengu. Þessi hæfileiki, öðrum framar, er undirstaða allrar framþróunar sem orðið hefur undanfarin árþúsund. Til þess að slík miðlun upplýsinga geti átt sér stað verða bæði Ungur og Gamall að eyða einhverjum tíma saman, enda erfitt að sjá hvernig “tamningin” sem vitnað er til í ágætu máltæki geti annars átt sér stað.

Eins og staðan er núna virðast börn og unglingar hins vegar eyða æ minni tíma með eldra fólki, en þeim mun meiri tíma hvert með öðru. Meira virðist bera á málvillum og erlendum orðum í málfari þeirra, og orðtakanotkun er nánast engin. Það er eðlilegt að unglingar vilji vera í samvistum við jafningja sína, sem lifa í sama reynsluheimi og eiga auðvelt með að skilja þá, en lítill verður lærdómurinn og þroskinn komi ekki aðrir að uppeldi ungviðisins.

Þessu má líkja við það að þrjátíu börnum væri, við sjö ára aldur, hent inn í kennslustofu í þeirri von að við útskrift átta árum seinna hefðu þau kennt hvert öðru dönsku, ensku og stærðfræði og væru tilbúin til að standast samræmd próf.

Greinarhöfundur gerir sér grein fyrir því að allt frá því að Kain og Abel neituðu að borða hafragrautinn sinn og létu, fyrstir manna, orðið “sjitt” frá sér fara við matarborðið hafa fulltrúar eldri kynslóða kvartað undan virðingarleysi þeirra yngri – oft að ósekju. Hann gerir sér einnig grein fyrir því að heimsendaspár þær, sem slíku kvabbi fylgja oft, rætast sjaldnast. Fjölmargir unglingar eiga ágæt samskipti við foreldra sína og önnur ættmenni og úr öðrum getur ræst, málfræðilega og að öðru leyti, þrátt fyrir skort á slíku atlæti.

Það vita það hins vegar flestir að ætli maður að ná tökum á erlendu tungumáli, með öllum þeim blæbrigðum og smáatriðum sem þeim fylgja, er langbest að eyða einhverjum tíma í viðkomandi landi, innan um þá sem tunguna tala. Þegar að móðurmálinu kemur er því ekkert öðruvísi farið – eigi íslenskan, og þá sérstaklega öll þau fjölbreyttu orðtök og máltæki sem hana prýða, að erfast milli kynslóða verður Gamall að hafa tækifæri til að temja og Ungur vilja og þolinmæði til að nema

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)