Heitrof borgarstjóra

Í gær birtist pistill hér Á Deiglunni þar sem fjallað var um Eiðsrofsmálið svokallaða. Þar er fjallað um meint rof á samkomulagi stjórnmálamanna um miðja síðustu öld og langvinnar pólitískar afleiðingar þess. Í þessu samhengi er áhugavert að velta fyrir sér stöðu R-listans og mögulegrar vinstristjórnar.

Í gær bárust þær fréttir að öllum málamiðlunartillögum hefði verið hafnað, bæði að hálfu Framsóknarflokks og Vinstri grænna annars vegar og Samfylkingar hins vegar. R-lista samstarfið riðar til falls og aðildarflokkar þess keppa nú að því að kenna hvor öðrum um yfirvofandi samstarfsslit og lýsa yfir óbilgirni hvors annars.

Því hefur oft verið haldið fram af Samfylkingarfólki að bæði Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir gætu þakkað Ingibjörgu Sólrúnu vegsemd sína í borgarmálum. Á móti er hægt að segja að Ingibjörg Sólrún væri ekki sá stjórnmálamaður sem hún er í dag án stuðnings fyrrnefndra flokka.

Í samningaviðræðum R-lista flokkanna í upphafi árs lagði Samfylkingarfólk mikla áherslu á það að Ingibjörg Sólrún yrði utan allra flokkskvóta og samþykktu hinir flokkanir það enda var borgarstjóri sameiningartákn R-listans og hægt að líta svo á að hún sæti sem fulltrúi allra flokka. Í ljósi þess var það því eðlileg krafa af hálfu Framsóknar og Vg að fá það á hreint hvort borgarstjóri hugði á þingframboð fyrir Samfylkinguna á meðan hún sæti sem borgarstjóri. Samkvæmt frásögnum þeirra sem sátu í samninganefndinni fullyrti Ingibjörg að hún stefndi ekki að því, og slíkt hið sama hefur hún gert ítrekað í fjölmiðlum. Það er því ljóst að Ingibjörg Sólrún hefur gengið á bak orða sinna.

Það er hægt að velta fyrir sér hvort forysta Samfylkingarinnar hafi ekki séð þessi viðbrögð samstarfsflokkanna fyrir og jafnvel talið það þjóna hagsmunum flokksins að mál þróuðust á þann hátt sem þau hafa gert. Sumir hafa einnig bent á að Samfylkingarfólki mundi ekkert finnast það slæm vígstaða að fara í næstu Alþingiskosningar með sama stjórnarmunstur í borgarstjórn eins og í landsstjórninni. Hin eignlega drottningarfórn gæti því í raun verið sú að Samfylkingin sé að fórna R-listasamstarfinu fyrir góða kosningu í næstu alþingiskosningum, og þá á kostnað samstarfsflokka sinna í borgarstjórn.

Eitt hefur þó gleymst í allri þessari umræði og það er fjárhagsáætlun Reykjarvíkurborgar sem ku ekki vera nein rós í hnappargat Ingibjargar Sólrúnar. Tímasetning á tilkynningu borgarstjóra á framboði sínu er því engin tilviljun, hún er til þess að breiða yfir ótrausta fjármálastjórn sem yrði slæmt veganesti í næstu Alþingiskosningum.

Það er ljóst að í dag gæti dregið til tíðinda í Reykjavík þegar borgarstjórnarflokkur R-listans kemur saman til fundar. Engin virðist tilbúinn að bakka og samstarfsflokkar Samfylkingarinnar telja réttilega að Ingibjörgu hafa gengið á bak orða sinna. Eiðsrofsmálið frá 1944 setti mikinn svip á samstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lengi á eftir. Það er því auðskilið að menn skoði áhrif þess, að Samfylkingin virðist hafa svikið samstarfsflokka sína, á framtíðar samstarfsmöguleika þessara flokka á öðrum vettvangi.

Eitt er ljóst að stjórnmálamaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem sameiningartákn vinstrimanna í Reykjavík, er ekki lengur til. Ljóminn er horfinn, hún er nú bara ein af hinum.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.